Beint í efni
Vísindasjóður - SKB

Ná­kvæm­ari skimun fyr­ir brjósta­krabba­mein­um

Sigríður Klara Böðvarsdóttir rannsakar lífmerki í brjóstakrabbameinsvef með það að markmiði að auðvelda greiningu brjóstakrabbameina og ákvarðanatöku meðferða.

Rannsóknin gengur út á að einangra lífmerki í brjóstakrabbameinsvef og flokka smásameindir og fituefni með massamyndgreiningu. Þær smásameindir eða fituefni sem tengjast marktækt ákveðnum undirflokkum sjúkdómsins eru líkleg lífmerki sem nýta megi við sjúkdómsgreiningu og ákvörðun meðferðar. Kannað verður hvort sömu lífmerki finnist í blóðvökva, sem megi nýta við þróun á nýju skimunarprófi fyrir brjóstakrabbameini. Um væri að ræða næmari greiningu en brjóstaskimun með myndgreiningu. Unnið er með stórt þýði brjóstakrabbameinssjúklinga þar sem fyrir liggja miklar upplýsingar m.a. um undirhóp sjúkdóms, ýmsa meinafræðilega þætti, tjáningu lykilprótína og BRCA2 stökkbreytingu.

Myndgreining er m.a. notuð við skimun eftir brjóstakrabbameinum og gerir okkur kleift að greina mein jafnvel áður en einkenni koma fram. Myndgreining getur í einhverjum tilvikum verið óáreiðanleg og bæði leitt til van- og ofgreiningar krabbameina. Ávinningur af einangrun lífmerkja í brjóstakrabbameinum og mögulegrar skimunar með blóðvökva er því ótvíræður til að greina krabbameinið á fyrstu stigum. Nákvæmari skimun getur einnig nýst konum sem bera arfgenga stökkbreytingu í BRCA1 og BRCA2 genum og þurfa að taka ákvörðun um fyrirbyggjandi brjóstnám, auk þess sem einangrun lífmerkja getur gefið vísbendingu um aðgreiningu í undirhópa sjúkdómsins. Slíkt getur verið mikilvægt þegar ákvarðanir eru teknar um meðferð áður en æxli er fjarlægt. Ákveðin samsetning lífmerkja getur jafnframt sagt fyrir um meðferðarþol sem leiðir til sértækari meðferðarúrræða strax á fyrstu stigum krabbameinsgreiningar.

Rannsóknin Leit að lífmerkjum í brjóstakrabbameinsvef hlaut 6,7 milljóna króna styrk úr Vísindasjóði árið 2025.