Beint í efni

Mögu­leiki á lyfj­um með hag­stæð­ara virkni­svið

Krishna Kumar Damodaran rannsakar þróun lífrænna rhodium (III) sambanda sem krabbameinslyf með aukið frumuaðgengi byggt á leysanleika og amínósýruferjum

Cisplatin er virkt og mikið notað krabbameinslyf en hefur margar alvarlegar aukaverkanir. Því er mikil þörf á að þróa krabbameinslyf sem byggjast á öðrum málmsamböndum með sértækari virkni gegn krabbameini og minni eiturverkanir. Lífræn rhodium sambönd gætu gefið möguleika á lyfjum með hagstæðara virknisvið og aðra verkunarmáta en hefðbundnu platínusamböndin. Í samvinnu við Helgu M. Ögmundsdóttur og samstarfsmenn hennar höfum við nýlega sýnt að lífræn tinsambönd sem byggjast á tengingu í phosphinoyldithioformat hafa prýðilega virkni gegn krabbameinsfrumum en þessi sambönd eru ekki vatnsleysanleg og henta því ekki til þróunar til klínískrar notkunar. Í þessu þverfaglega verkefni er markmiðið að smíða safn af nýjum phosphinoyldithioformat samböndum með amínósýru afleiðum og rhodium(III) sambönd þeirra. Slík sambönd innihalda vatnssækna amínósýru sem eykur vatnsleysanleika sem svo leiðir til aukins flæðis í frumur og sértækrar upptöku í krabbameinsfrumur. Frumudrepandi áhrif þessara efnasambanda verða prófuð í nokkrum ólíkum krabbameinsfrumum. Nýr verkunarmáti slíkra málmsambanda gerir kleift að komast framhjá ónæmi gegn núverandi krabbameinslyfjum svo og aukaverkunum þeirra. Þannig verður það verulegt framfaraskref að komast að verkunarmáta þessara nýju málmsambanda, greina hvernig þau valda frumudauða og hvaða hlutverki hver hluti sambandanna gegnir í virkninni.

Lífræn rhodiumsambönd eru minna eitruð en cisplatin og tengjast á annan hátt við DNA en eru líkleg til að hafa hagstæða frumudrepandi virkni sem krabbameinslyf. Nýlundan í þessu verkefni er að tengja amínósýrur við rhodiumsamböndin sem eykur vatnsleysanleika en býður einnig uppá nýja möguleika á samskiptum þessara sambanda við efna- og orkuskiptaferla í frumum. Sú þekking sem þetta verkefni mun skapa verður því mjög gagnleg í frekari rannsóknum á sviði lífrænna málmsambanda og í lyfjaiðnaðinum til þróunar á vatnsleysanlegum krabbameinslyfjum með sértæka virkni

Framvinda árið 2025:

Sería af rhodium(III) flóka var mynduð og greind með góðum árangri með því að nota nota fosfórýlhýdrasín karbódítíóat (AAPHT) tengla sem eru fengnir úr amínósýrum eins og glýsíni, L-alaníni, D-alaníni og L-leúsíni. Flókarnir voru skimaðir kerfisbundið gegn nokkrum krabbameinsfrumulínum og gáfu þær prófanir lykilinnsýn í meðferðarlega virkni og sýndu mismunandi virkni milli mismunandi frumutegunda. Í kjölfarið var gerð ítarleg rannsókn á verkunarmáta efnanna til að skilja ferlana sem leiða til frumudrepandi áhrifa þeirra. Mikilvægur þáttur þeirrar rannsóknar fólst í rannsóknum á frumuupptöku, sem eru nauðsynlegar til að skilja hvernig nýta má efnin sem meðferðarmöguleika.

Rannsóknin Þróun lífrænna rhodium (III) sambanda sem krabbameinslyf með aukið frumuaðgengi byggt á leysanleika og amínósýruferjum, hlaut 2,9 milljóna króna styrk úr Vísindasjóði árið 2024 og 4,3 milljóna króna framhaldsstyrk árið 2025.