Leitin að lækningu á krabbameini í líkamanum sjálfum
Berglind Eva Benediktsdóttir lyfjafræðingur vinnur að því að breyta brjóstaþekjufrumum þannig að þær sendi boð um að eyða skuli brjóstakrabbameinsfrumum án þess að hafa áhrif á heilbrigðar frumur.
Um 220 konur greinast með brjóstakrabbamein ár hvert hér á landi en það er eitt það algengasta meðal kvenna á Íslandi. Því er mikilvægt að átta sig á hvaða þættir hafa áhrif á myndun þess og að sífellt sé leitað leiða til að lækna þær konur sem veikjast. En brjóstakrabbamein er í raun ekki bara ein tegund krabbameina heldur yfirheiti margra sem eru ólík að eðli og miserfið meðhöndlunar. Svokölluð þríneikvæð brjóstakrabbamein (ÞNBK) eru ein erfiðasta undirtegund brjóstakrabbameina sem til er og eru lífslíkur kvenna sem greinast með slíkt mein lakari en þeirra sem greinast með aðrar undirtegundir.
Berglind Eva Benediktsdóttir, dósent í lyfjafræði við Háskóla Íslands, er ung og gríðarlega afkastamikil vísindakona. Hún hefur stundað rannsóknir á þessari tegund krabbameins í nokkurn tíma með það í huga að þróa lyfjaferjur eða nanólyfjabera sem komið geta að gagni við að lækna sjúklinga með þetta erfiða mein. Lyfjaferja hefur það hlutverk að flytja lyf um líkamann og helst á þá staði þar sem þeirra er mest þörf en lyfjaferjurnar sjálfar eru jafnan í nanóstærð og úr ýmsum flóknum og ólíkum efnasamböndum.
Sláandi hversu margar konur greinast með brjóstakrabbamein
Berglind Eva útskýrir hvers vegna hún valdi að rannsaka þríneikvæð brjóstakrabbamein:
„Mér fannst sláandi hversu margar konur greinast með brjóstakrabbamein og þekki margar konur sem hafa tekið baráttuna við slík mein. Við erum heppin að lifa á tímum þar sem vísindin hafa gert okkur kleift að meðhöndla flestar þessara kvenna með markvissum hætti. Því hafa lífslíkur kvenna, sem greinast, batnað til muna en þær eru þó einna minnstar hjá þeim sem eru með ÞNBK. Því valdi ég þennan undirhóp brjóstakrabbameina í rannsókninni. Lyfjameðferð ÞNBK er almennt ekki sértæk og getur leitt til lyfjaónæmis og víðtækra aukaverkana. Þess vegna er afar mikilvægt að finna lyf eða aðferðir til að meðhöndla þessa undirgerð brjóstakrabbameins með skilvirkum hætti.“
Leitin að nýju leynivopni
Berglind Eva hefur beint sjónum að svokölluðum exósómum í rannsókn sinni, sem eru nokkurs konar bólur sem líkaminn hefur þróað með sér. Frumur mannslíkamans nota exósóm sem eins konar flutningstæki til að flytja prótein og viðkvæmar stórsameindir, eins og DNA, á milli sín. Með þessu koma frumurnar til skila ákveðnum boðum vegna t.d. nýmyndunar æða, frumudauða og áhrifa innan ónæmiskerfisins.
Exósóm hafa líka þann meginkost að sækja í þann vef sem þau koma upphaflega frá og hafa hlutfallslega langan helmingunartíma í blóði. Þess vegna gætu exósóm orðið tilvaldar lyfjaferjur, bæði sökum stærðar og eðlis.
„Exósóm hafa ekki verið reynd sem lyfjaferjur gegn ÞNBK en hugmyndin er að þau verði nýtt með meiri virkni en áður hefur þekkst á sjálfar krabbameinsfrumurnar og með minni aukaverkunum en með hefðbundnum krabbameinslyfjum,“ segir Berglind Eva. Hún vinnur nú að því að umbreyta brjóstaþekjuvefsfrumum til að losa exósóm þaðan með ákveðið prótein innanborðs sem á að vinna gegn ÞNBK. Fyrstu skrefin eru nú stigin með þróun aðferða til að einangra exósóm í nægjanlegu magni til að gera áframhaldandi prófanir mögulegar.
Nýjar aðferðir til að einangra leynivopnið
„Flestar einangrunaraðferðir á exósómum sem notaðar eru í dag eru afar ósértækar. Það leiðir til rangra túlkana á niðurstöðum sem á þeim byggja. Því fannst mér grundvallaratriði að setja upp aðferð til að einangra hrein og líffræðilega virk exósóm,“ segir Berglind Eva.
Fyrstu niðurstöður gefa góðar vísbendingar um að hægt sé að nota skilvindusíur til að einangra exósómin ásamt því að hagnýta sérstaka súlu sem aðgreinir efni úr frumuvökvanum eftir stærð sameinda. Með þessu eru exósómin hreinsuð frá öðrum efnum í frumuvökvanum. En þar sem exósómin eru á nanóskala, þá er þetta gríðarlega flókið og tímafrekt verk.
Árangursrík framleiðsla lyfjafræðilega virkra exósóma opnar ekki aðeins dyr að nýjum meðferðum gegn ÞNBK heldur er einnig hægt að heimfæra þessa aðferð á aðrar tegundir krabbameina.“
Umfjöllunin hér að ofan birtist fyrst á vef Háskóla Íslands þann 12. júlí 2019 og er birt með góðfúslegu leyfi.
Verkefni Berglindar Evu, Sérhönnuð exósóm í baráttunni gegn þríneikvæðum brjóstakrabbameinum, hlaut 5,6 milljóna króna styrk úr Vísindasjóði Krabbameinsfélagsins árið 2018. Styrkurinn var nýttur til að fjármagna að hluta laun doktorsnema og efniskostnað.
MYND/Kristinn Ingvarsson