Beint í efni

Kæl­ing gæti breytt svörun við lyfja­meðferð

Hans Tómas Björnsson og Salvör Rafnsdóttir rannsaka kæliferil í krabbameinsfrumum og vonast er til að niðurstöður geti leitt til nýrra meðferða og dregið úr aukaverkunum meðferða.

Hans Tómas Björnssonm yfirlæknir og prófessor í færsluvísindum við læknadeild Háskóla Íslands, og Salvör Rafnsdóttir, læknir og doktorsnemi, hafa lengi velt því fyrir sér hvers vegna sumir svara krabbameinslyfjameðferðum betur en aðrir. Þau hafa í rúm fjögur ár haft hugann við svokallaðan kæliferil í frumum.

Hægt að draga úr aukaverkunum með mildri kælingu

Við milda kælingu (32°C) eykst magn vissra gena, sem tengjast því hversu lengi fólk lifir eftir greiningu krabbameins. Þessi tilteknu gen virðast auka frumuskiptingu hjá æxlisfrumum, sem er talið gott þegar meðferðin virkar á þær því að við það eykst svörun við krabbameinslyfjameðferð. Á sama tíma hefur verið sýnt fram á að hægt er að draga úr hárlosi, algengri aukaverkun lyfjameðferðar, með því að kæla hársvörðinn. Hans og Salvör telja að hægt sé að hafa áhrif á kæliferilinn bæði til að þróa betri meðferðir og minnka aukaverkanir meðferðar. Margt sé þó enn á huldu um kæliferilinn.

„Við teljum okkur vera að rannsaka nýjan feril. Kosturinn við að rannsaka eitthvað sem hefur verið lítið rannsakað áður er að þá eru talsverðar líkur á að við getum fundið eitthvað. Við teljum að skilningur á þessum ferli geti leitt til nýrra meðferða og hjálpað okkur að draga úr aukaverkunum af krabbameinslyfjameðferð.“

Margt sem þarf að gerast í huganum á manni

Rannsóknin á langan aðdraganda og sagan byrjar vorið 2016 þegar Salvör, þá læknanemi við Háskóla Íslands, kom í þriðja árs lokaverkefni til Baltimore þar sem Hans Tómas starfaði á þeim tíma. Hann bauð henni að velja milli nokkurra verkefna og Salvör valdi að rannsaka kæliferilinn, verkefni sem Hans taldi vera mjög flókið. Framgangur verkefnisins reyndist hins vegar góður, Salvör framlengdi dvölina í Baltimore út sumarið, vann smá í því meðfram fjórða árinu í læknisfræðinni og í valtímabili á sjötta ári. Nú er þetta orðið doktorsverkefni Salvarar. Þau telja það ótvíræðan kost hvað verkefnið hefur átt langan aðdraganda þó að unnið hafi verið í því í skorpum þar til nú, „því að það er svo margt sem þarf að gerast í huganum á manni. Maður þarf að hugsa þetta út og þess vegna er verkefnið nú orðið svona vel mótað, metnaðarfullt og líklegt til að skila árangri“.

Tilraunamýs nauðsynlegur milliliður

Salvör notar fyrst og fremst frumurannsóknir til að rannsaka kæliferilinn. Þá óvirkjar hún öll gen frumunnar og kannar svo á kerfisbundinn hátt nákvæmlega hvaða gen hafa áhrif á ferilinn. Það sem lofar góðu í frumurannsóknunum skoðar hún því næst í tilraunamúsum.

Rannsóknarhópurinn, sem auk þeirra telur fimm doktorsnema, hópstjóra og tvo rannsóknarmenn, er með um 400 mýs og 100 rottur. Þau segja að dýrarannsóknirnar séu nauðsynlegur milliliður milli grunnrannsókna í frumum og klínískra rannsókna í fólki. Þar sé hægt að staðfesta gagnsemi og rannsaka öryggi og fleira. Í verkefninu þarf Salvör að gera litlar aðgerðir á músum og fær þá aðstoð til að þurfa ekki að vera bæði í hlutverki svæfingalæknis og skurðlæknis fyrir mús, eins og hún segir.

„Við gerum ákveðnar tilraunir á þeim, fyrirfram ákveðnar sem við höfum leyfi til að gera. Þær eru ofboðslega mikilvægar fyrir rannsóknirnar okkar. Við notum eins fáar mýs og mögulegt er og hugsum mjög vel um þær, bæði dýralæknir og dýrahjúkrunarfræðingar fylgjast með þeim. Við skiptumst svo á að heimsækja mýsnar. Þær eru pínulitlar, skemmtilegar og krúttlegar. Það er gaman að sinna þeim, hreinsa búrin og svona. Við tengjumst músunum alveg þannig, þó að maður tengist ekki einstaka dýrum.“

Fólk tveggja heima

Hans er prófessor í færsluvísindum (e. translational research) sem er fag sem færir þekkingu úr grunnvísindum yfir til lækna eða sjúklinga. Að hans mati er mjög mikilvægt að sem flestir læknar fari í doktorsnám vegna þess að til að eðlileg framþróun í krabbameinsrannsóknum eigi sér stað þurfi fólk sem á heima á báðum stöðum, bæði klínískt og í rannsóknarheiminum. Þetta sé fólkið sem eigi eftir að færa þekkinguna úr frumum og músum til sjúklinga og koma með nýjar meðferðir.

„Það er mjög mikilvægt að styðja við fólkið sem vill þjálfa sig á þennan hátt. Við erum því einstaklega glöð og þakklát fyrir þennan styrk sem kemur verkefninu raunverulega af stað og gerir Salvöru kleift að einbeita sér að því að fullu. Við þökkum kærlega fyrir.“

Verkefnið Kortlagning kæliferilsins í krabbameinsfrumum til að varpa ljósi á ný meðferðarmörk, áhrif á lifun og meðferðarsvörun hlaut 9,1 milljónar króna styrk úr Vísindasjóði Krabbameinsfélagsins árið 2020.

„Niðurstöður okkar benda til þess að til staðar sé náttúrulegt streitukerfi í frumum sem er tiltölulega óþekkt (streitukerfi sem tengist kælingu). Þetta kerfi hefur lítið verið rannsakað enn sem komið er en við höfum nú tekið skref til þess að kortleggja ferilinn sem virkjast við kæliviðbragð. Það er von okkar að rannsóknin okkar verði fyrsta skrefið í að skilja hvort og hvernig þessi ferill hefur áhrif á krabbamein, meðferðarmörk við krabbameini og getuna til að draga úr aukaverkunum við meðferð krabbameina.“