Jákvæðar niðurstöður geta leitt til minni aukaverkana
Jens G. Hjörleifsson þróar hrifilnæma sykurrofshindra gegn krabbameinsfrumum
Hefðbundnum krabbameinsferðum fylgja oft aukaverkanir sem valda sjúklingum miklum óþægindum á meðan meðferð stendur. Spáð er mikilli framþróun í sértækum krabbameinslyfjum sem notuð eru meðfram lyfjameðferðum eða ein og sér gegn ákveðnum tegundum krabbameina. Mikilvægt er að styrkja grunnrannsóknir í lyfjaþróun gegn krabbameinum. Í þessu verkefni var leitast eftir að þróa sértæk hrifilnæm (e. allosteric) lyf gegn sykurrofsensímum með nýstárlegum skimunar og reikniaðferðum. Hrifilnæmir hindrar eru sértækari en almennir hindrar, sýna lægri aukaverkanir, þurfa ekki að líkja eftir heðbundnum bindisetum og geta þar með haft fjölbreyttari efnafræðilega eiginleika en hefðbundin smásameindalyf. Hér er sérstaklega einblínt á meðferð gegn, lungna, brjósta og briskrabbameinum. Jákvæðar niðurstöður úr þessari rannsókn geta leitt til beitingu sértækari lyfja sem hafa minni aukaverkanir en núverandi meðferðir.
Verkefnið Þróun á hrifilnæmum sykurrofshindrum gegn krabbameini hlaut 5.500.000 kr. styrk úr Vísindasjóði Krabbameinsfélagsins árið 2023