Hvenær er besti tíminn til að bólusetja börn eftir krabbameinsmeðferð?
Valtýr Stefánsson Thors rannsakar hvernig og hvenær er rétt að bólusetja börn eftir krabbameinsmeðferð.
Meðferð við krabbameini veldur bælingu ónæmiskerfisins. Slík bæling getur varað í mánuði og jafnvel ár eftir að meðferð lýkur. Á þeim tíma eru einstaklingar sem lokið hafa meðferð næmari en aðrir fyrir sýkingum. Þetta á einkum við um börn. Til að minnka áhættuna eru börn bólusett eftir meðferðina gegn ýmsum sjúkdómum.
„Rannsóknin miðar að því að meta hve hratt ónæmiskerfi barna nær styrkleika eftir meðferð og hvenær besti tíminn er til að bólusetja þau svo hámarka megi vernd gegn sýkingum.“ segir Valtýr.
Verkefnið Ónæmissvar barna eftir krabbameinsmeðferð - hvernig og hvenær er rétt að bólusetja? hlaut 5.647.397 kr. styrk úr Vísindasjóði Krabbameinsfélagsins árið 2022.