Horfur BRCA2 arfbera með estrógen jákvæð æxli
Stefán Sigurðsson rannsakar slæmar horfur estrógen jákvæðra BRCA2 arfbera með brjóstakrabbamein.
Almennt séð hafa brjóstakrabbameinssjúklingar með estrógen viðtaka jákvæð æxli, góðar horfur. Þessar konur er hægt að meðhöndla með sértækum lyfjum eins og tamoxífeni sem hindrar áhrif estrógens. Nýlegar rannsóknir okkar sýna að arfberum BRCA2 stökkbreytingar sem er mjög algeng á Íslandi vegnar hins vegar mjög illa ef æxli þeirra eru estrógen jákvæð og hafa jafnvel verri horfur en brjóstakrabbameinssjúklingar með þríneikvæð æxli, sem er talinn vera sá undirhópur sem hefur verstu lífslíkurnar. Ástæðan fyrir þessum slæmu horfum BRCA2 arfbera með estrógen jákvæð æxli er óþekkt. Þessir sjúklingar eru nú meðhöndlaðir eins og aðrir ER-jákvæðir brjóstakrabbameinssjúklingar en þurfa hugsanlega á ágengari og markvissari lyfjamerðferð að halda. Nauðsynlegt er að skoða líffræðina sem liggur að baki til að skilja betur hvað gerir æxli sem skortir BRCA2 en tjá estrógen viðtakann svona slæm. Markmið þessarar rannsóknar er að auka skilning okkar á því hvers vegna BRCA2 arfberar með ER jákvæð æxli vegnar eins illa og raun ber vitni.
Þessi rannsókn hefur mjög mikið klínískt gildi. Það er mjög mikilvægt er að skilja betur hvers vegna BRCA2 arfberum vegnar svo illa ef æxli þeirra eru estrógen jákvæð. Þessu er öfugt farið í tilfallandi æxlum (sporadic) þar sem horfur þeirra sjúklinga eru hvað bestar. Mikilvægt er að rannsaka hvað getur hugsanlega legið að baki þessum óvæntu niðurstöðum til að hægt sé að aðlaga meðferð og gera hana markvissari.
Framvinda árið 2025:
Rannsóknin hefur leitt í ljós að estrógen getur aukið DNA-skemmdir og óstöðugleika í frumum sem skortir BRCA2. Jafnframt hefur verið sýnt fram á að BRCA2 stökkbreyttar ER+ brjóstakrabbameinsfrumur safna upp meira af DNA skemmdum eftir estrógenmeðferð, sem gæti stuðlað að hraðari framvindu æxlis. Þessar niðurstöður styðja þá kenningu að estrógen geti haft skaðleg áhrif í BRCA2 stökkbreyttum æxlum og gæti skýrt að hluta til hvers vegna þessir sjúklingar hafa verri horfur en búist var við. Þessar niðurstöður hafa mikilvægt klínískt gildi, þar sem þær benda til þess að BRCA2 arfberar með ER+ æxli gætu þurft markvissari meðferð sem tekur mið af þessu aukna magni DNA skemmda.
Rannsóknin Slæmar horfur estrógen jákvæðra BRCA2 arfbera með brjóstakrabbamein hlaut 6,4 milljóna króna styrk úr Vísindasjóði árið 2024 og 10 milljóna króna framhaldsstyrk árið 2025.
