Greinir virkni lykilpróteins
Margrét Helga Ögmundsdóttir og Valgerður Jakobína Hjaltalín nota ávaxtaflugur til að greina virkni lykilpróteins í sjálfsátsferlinu í myndun og meinvörpun æxla
Niðurbrot í frumum kallast sjálfsát og er nauðsynlegt fyrir almenna vefjastarfsemi. Breytingar verða oft í þessu ferli í æxlisfrumum og reiða þær sig á niðurbrotið til þess að komast af við erfiðar aðstæður. Verið er að kanna meðferðarmöguleika með sjálfsátshindrum í ólíkum gerðum æxla, en komið hefur í ljós að samspil stökkbreytinga í æxlum hefur mikil áhrif á virkni hindranna. Rannsóknin snýr að því að greina betur samband sjálfsáts og krabbameina til þess að skilja hvenær slíkur meðferðarmöguleiki hentar. Valgerður Jakobína Hjaltalín doktorsnemi mun nýta ávaxtaflugur til þess að greina virkni lykilpróteins í sjálfsátsferlinu í myndun og meinvörpun æxla.
Verkefnið Hlutverk ATG7 í samspili uppbyggingar og niðurbrots í krabbameinsfrumum hlaut 8.000.000 kr. styrk úr Vísindasjóði Krabbameinsfélagsins árið 2023