Gagnist heilbrigðisyfirvöldum og konum á Íslandi
Laufey Tryggvadóttir og Álfheiður Haraldsdóttir bera saman gæði skimunar fyrir brjóstakrabbameini eftir aldri kvenna.
Talið er að skimanir geti lækkað dánartíðni af völdum brjóstakrabbameins en forsenda þess er að leitin uppfylli gæðakröfur. Allt frá því að skimanir fyrir brjóstakrabbameini hófust á Íslandi árið 1987 hefur verið skimað hjá konum á aldrinum 40–69 ára. Nýlega voru kynntar áætlanir um að breyta þessum aldri í 50–74 ára, en vegna mótmæla frá almenningi hefur þessum breytingum verið frestað um ókveðinn tíma og sem stendur er óljóst hvort eða hvenær þær taka gildi.
Laufey Tryggvadóttir, faraldsfræðingur hjá Krabbameinsfélaginu, og Álfheiður Haraldsdóttir, nýdoktor í lýðheilsuvísindum, ætla að bera saman gæði skimunar fyrir brjóstakrabbameini milli kvenna á aldrinum 40-49 ára og 50-69 ára.
„Vegna þeirrar óvissu sem nú er uppi varðandi aldursbilið er markmið rannsóknarinnar að skoða gæði brjóstakrabbameinsskimana, sem eru forsenda árangursríkrar skimunar. Niðurstöðurnar munu gagnast íslenskum heilbrigðisyfirvöldum og konum búsettum á Íslandi á aldrinum 40–49 ára varðandi ákvörðunartöku um markhópa fyrir skimun og þátttöku í henni. Niðurstöðurnar geta einnig haft almennt gildi við mótun klínískra leiðbeininga varðandi skimun fyrir brjóstakrabbameini hjá konum á aldrinum 40–49 ára.“
Gæði verða rannsökuð, m.a. út frá eftirfarandi þáttum: Hlutfalli kvenna sem mætir í skimun, hve mikið er um að mein greinist milli skimana, hve stórt hlutfall greinist með lítil mein (<= 10 mm), stór mein (>20 mm), með eitlaíferð og hve stórt hlutfall kvennanna þarf að fara í brottnám brjósts. Þetta verður skoðað eftir því á hvaða aldri konurnar mættu í skimun, þ.e. hvort þær voru 40-49 eða 50-69 ára.
Verkefnið Brjóstakrabbamein á Íslandi árin 1988 – 2020: Samanburður á gæðum skimunar og meinafræðilegum forspárþáttum, milli kvenna á aldrinum 40 – 49 ára og 50 – 69 ára hlaut 9,2 milljóna króna styrk úr Vísindasjóði Krabbameinsfélagsins árið 2021.