Beint í efni

Bætt heilsa og lífs­gæði í kjöl­far með­ferðar

Georgios Kararigas rannsakar leið til að vinna gegn skaðlegum áhrifum krabbameinslyfja á hjartað.

Lyfið doxórúbicín er notað í meðferð gegn mörgum krabbameinum en eins og með önnur frumudrepandi lyf hefur það ekki einungis áhrif á krabbameinsfrumur heldur einnig aðrar frumur í líkamanum. Lyfið getur haft áhrif á hjartavöðva og valdið hjartaskemmdum. Það er því mikilvægt að finna leiðir til að vinna gegn þessum alvarlegu aukaverkunum sem geta fylgt sumum krabbameinsmeðferðum.

Georgios Kararigas, prófessor við Læknadeild Háskóla Íslands, leiðir nú verkefni sem mun prófa þá tilgátu að kúrkúmín-afleiðan C66 verndi gegn hjartaskemmdum og hjartabilun vegna doxórúbicíns. Hann notast við frumu- og músarannsóknir.

„Það er brýn þörf á að draga úr skaðlegum áhrifum doxórúbicíns á hjartað og bæta þannig verulega lífsgæði krabbameinssjúklinga. Mögulega verður þetta efnasamband hluti af lausninni,“segir Georgios og bætir við að huga þurfi að ýmsu. Til dæmis er mikilvægt að gæta þess að kúrkúmínafleiðan valdi engum skaða og dragi ekki úr áhrifum krabbameinsmeðferðarinnar sjálfrar.

Verkefnið Áhrif nýju curcúmín afleiðunnar C66 á hjartavöðvakvilla af völdum doxórúbicíns hlaut 10 milljón kr. styrk úr Vísindasjóði Krabbameinsfélagsins árið 2021 og hlaut 5.269.760 króna styrk árið 2022.