Áhrif próteinmagns á hegðun fruma
Gunnhildur Ásta Traustadóttir og samstarfsmenn rannsaka hlutverk próteinsins peroxidasin í eðlilegum og illkynja brjóstkirtli.
Peroxidasin er prótein sem eykur frumuvöxt og hvetur æxlisfrumur í eggjastokkakrabbameinum og sortuæxlum til að dreifa sér yfir í önnur líffæri. Rannsóknarhópur Gunnhildar Ástu Traustadóttur á Rannsóknastofu í stofnfrumufræðum við Háskóla Íslands hefur séð að peroxidasin hefur líka áhrif á þroskun brjóstkirtilsins. Hlutverki þess hefur hins vegar ekki verið lýst í brjóstkirtli.
Markmið verkefnisins er að kanna hlutverk peroxidasin í eðlilegum og illkynja brjóstkirtli, með það að leiðarljósi að auka skilning á samspili krabbameins og umhverfis.
„Við erum að vinna með frumur, bæði heilbrigðar frumulínur og líka krabbameinslínur. Við þvingum frumurnar til að hafa óvenju mikið magn af peroxidasin og skoðum hvernig þetta mikla magn breytir hegðun frumanna. Seinna meir getum við vonandi farið yfir í músarannsóknir. Þá er hugmyndin að athuga hvort frumurnar sem við erum búnar að þróa, og hafa óvenju mikið peroxidasin, valdi því að það myndast frekar krabbamein í músum,“ segja þær Gunnhildur, Anna Karen Sigurðardóttir sem er á lokametrum doktorsnáms og Arna Steinunn Jónasdóttir meistaranemi sem er nýlega komin inn í verkefnið.
Spurðar að því hvernig sé að vinna með frumulínur stendur ekki á svörum:
„Maður hugsar um frumurnar eins og börn. Þær þurfa að fá að borða réttan mat á réttum tíma, þeim þarf að vera hlýtt, þær mega ekki vera of margar í litlu rými. Við þurfum að bregðast við ef þær fá sýkingu eða líður illa. Maður lærir að þekkja hegðunina og þegar maður hefur lagt svona mikla vinnu í frumurnar, þá sinnir maður þeim vel, jafnvel dekrar við þær. Okkur finnst við stundum vera hálfgerðar dagmömmur fyrir frumurnar.“
Þær leggja áherslu á það hvað grunnrannsóknir skipta miklu máli, það sé nauðsynlegt fyrir framþróun í greiningu og meðferð krabbameina að skilja hvað veldur krabbameinum og hvað er að gerast í líkamanum.
Verkefnið, Hlutverk peroxidasin í eðlilegum og illkynja brjóstkirtli, hlaut 4 milljóna króna styrk árið 2021, 4,5 milljóna króna styrk árið 2020 og 2,5 milljóna króna styrk árið 2019 úr Vísindasjóði Krabbameinsfélagsins. Styrkurinn er fyrst og fremst nýttur í laun doktors- og meistaranemanna og til að kaupa efnivið fyrir rannsóknirnar.
Framvinda (mars 2021):
Virkni próteinsins peroxidasin (PXDN) hefur hingað til ekki verið rannsökuð í brjóstum en niðurstöður gagna sem fengin voru úr gagnagrunnum bentu til þess að PXDN gæti haft veruleg neikvæð áhrif á lifun kvenna með ákveðna undirgerð brjóstakrabbameina. Í rannsóknum okkar, sem beinst hafa að kortlagningu á virkni próteinsins í eðlilegum brjóstkirtli, höfum við sýnt fram á að PXDN gegnir hlutverki í þroskaferlum brjóstkirtilsins og sérhæfingu þekjufruma í frumurækt. Rannsóknir okkar benda til þess að PXDN auki hreyfanleika eðlilegra fruma í rækt en hreyfanleiki er einn af þeim eiginleikum sem krabbameinsfrumur þurfa að búa yfir til að ráðast inn í umlykjandi vef. Rannsóknir okkar gefa tilefni til frekari rannsókna á hlutverki PXDN í brjóstakrabbameinsfrumum með tilliti til hreyfanleika og næmi fyrir krabbameinslyfjum.
Gunnhildur Ásta Traustadóttir þakkaði Vísindasjóði stuðninginn í yfirlitsgrein frá 2020 og ritstjórnargrein frá 2021: