Málmsambönd til þróunar á krabbameinslyfjum

Helga M. Ögmundsdóttir rannsakar virkni málmsambanda gegn krabbameinsfrumum.

Efnafræðilegir eiginleikar málma bjóða upp á fjölbreytta möguleika til smíða á efnasamböndum. Platínulyf gegna mikilvægu hlutverki í krabbameinsmeðferð en þau hafa alvarlegar aukaverkanir. Einnig geta krabbamein myndað ónæmi fyrir lyfjum.

Helga M. Ögmundsdóttir prófessor emerita við læknadeild Háskóla Íslands rannsakaði ásamt nemendum sínum nýsmíðuð lífræn sambönd með tini og rhodium. Markmiðið var að rannsaka virkni þessara nýju tin- og rhodiumsambanda með það fyrir augum að finna málmsambönd til þróunar á krabbameinslyfjum.

Þau notuðust við rannsóknir á frumulínum, bæði krabbameinsfrumulínum og frumulínum sem ekki voru úr krabbameinum. Annað af tveimur tinsamböndum reyndist virkara en krabbameinslyfið cisplatin gegn nokkrum krabbameinsfrumulínum en minna virkt gegn frumulínum sem voru ekki úr krabbameinum. Reynt var að skilgreina verkunarmátann.

Verkefnið Skimun fyrir virkni nýsmíðaðra lífrænna tin og rhodium sambanda gegn krabbameinsfrumum og skilgreining á verkunarmáta hlaut 4,7 milljónir króna árið 2019 og 3,8 milljónir króna árið 2018 úr Vísindasjóði Krabbameinsfélagsins.

Við afhendingu styrksins árið 2019 sagði Helga:

Styrkurinn skiptir sköpum. Hann gerir okkur kleift að fylgja eftir mjög spennandi niðurstöðum, sem eru afraksturinn af vinnu fyrir styrkinn sem við fengum í fyrra, og rannsaka frekar sértæka virkni lífrænna tin- og rhodiumsambanda gegn krabbameinsfrumum.“

 Í greininni  Cytotoxic effects of halogenated tin phosphinoyldithioformate complexes against several cancer cell lines má lesa um niðurstöður rannsóknarinnar

MYND/Kristinn Ingvarsson