Beint í efni

Líð­an og bjargráð

Margir upplifa sig í lausu lofti eftir greiningu krabbameins. Óvissan um það sem tekur við er erfið og getur valdið kvíða.

Yfirleitt upplifir fólk vissan létti þegar allar rannsóknarniðurstöður liggja fyrir og búið er að leggja upp áætlun varðandi meðhöndlun krabbameinsins. Oft lýsir fólk því þannig að það fái aftur fast land undir fæturna þótt eðlilegt sé að upplifa áfram kvíða og sveiflur í andlegri líðan í ferlinu sem tekur við.

Hugsanir og tilfinningar

Það er flestum mikið áfall að greinast með krabbamein. Margir hafa lýst tilfinningunni þannig að það sé eins og lífið standi í stað en um leið sé þeim kippt inn í veruleika sem felur í sér ógrynni af nýjum upplýsingum og fjölmörg ný andlit. Fólk bregst við atburðum í lífinu á mismunandi hátt en hér eru nefnd nokkur algeng viðbrögð við því að greinast með krabbamein. 

  • Eðlilegt er að upplifa dofa til að byrja með og þér gæti fundist óraunverulegt að vera komin/-n í þessi spor, sérstaklega ef krabbameinið veldur engum einkennum. Þú gætir fundið fyrir erfiðleikum við að einbeita þér og muna eða meðtaka þær upplýsingar sem þú þarft að taka við.

  • Ákveðnar hugsanir geta verið þrálátar og leitt þig aftur og aftur að verstu mögulegu niðurstöðunni. Margir upplifa ótta og óvissu þegar horft er til framtíðar og þess hvernig þeim muni reiða af. Mikilvægt er að minna sig á að líkurnar á því að læknast af krabbameini eða að lifa með því eru meiri nú en nokkru sinni áður.

  • Þegar breytingar verða sem setja lífið úr skorðum er eðlilegt að finna fyrir depurð. Þú gætir upplifað depurð yfir því að þurfa að takast á við krabbameinið og geta ekki haldið áfram með líf þitt eins og það var. Þessu getur fylgt einmanaleiki, jafnvel þótt þú hafir marga í kringum þig sem eru reiðubúnir að styðja þig.

  • Þú gætir fundið fyrir reiði eða vonbrigðum í garð líkama þíns eða krabbameinsins. Reiði út heilbrigðisstarfsfólk, sjálfa/-n þig, aðra í kringum þig eða almættið. Oft geta undirliggjandi þættir eins og vanlíðan, hræðsla og spenna ýtt undir reiðina.

  • Sumir upplifa sektarkennd sem getur komið fram í því að kenna sjálfum sér um að hafa fengið krabbameinið. Mikilvægt er að hafa í huga að í flestum tilvikum er ómögulegt að segja til um hvað nákvæmlega veldur krabbameini. Þar geta blandast saman margir þættir sem læknar og fræðimenn skilja ekki enn til fulls. Sektarkennd getur líka átt rætur í hugsunum um að valda sínum nákomnu vanlíðan og áhyggjum. Það er mikilvægt að geta rætt slíkar hugsanir upphátt og unnið með tilfinningarnar sem þeim fylgir.

  • Að deila líðan þinni og reynslu með einhverjum sem þú treystir vel getur hjálpað meira en þig grunar, hvort sem það er fjölskyldumeðlimur, vinur eða einhver annar. Það er gott að geta áttað sig á og sett nafn á þær tilfinningar sem þú ert að upplifa. Það eitt og sér getur dregið úr ákefð þeirra og auðveldað þér að sjá hlutina í víðara samhengi.

Bjargráð sem geta gagnast

  • Óhætt er að segja að margir upplifi að stjórnin sé tekin af lífi þeirra við greiningu krabbameins. Fyrir margareynist þetta erfitt og veldur kvíða. Það getur því hjálpað að leita markvisst eftir því sem þú hefur stjórn á þrátt fyrir allt. Það geta verið litlir hlutir eins og hverju þú ætlar að klæðast þennan daginn, hvernig þú ætlar að næra þig eða jafnvel með hvaða hugarfari þú ætlar að nálgast daginn. Dagleg rútína er áfram mikilvæg, jafnvel þótt hún gæti breyst eftir greiningu krabbameins eða í krabbameinsmeðferðinni. Góð dagleg rútína gefur ákveðna stjórn og takt í lífið, hjálpar okkur gjarnan að komast í gegnum erfiða tíma og eykur líkur á að þú hugsir vel um þig.

  • Öll erum við ólík og hentar misvel að ræða opinskátt um líðan okkar. Öll höfum við líka leyfi til að takast á við hlutina á okkar hátt. Það getur hins vegar hjálpað mikið að tala við einhvern sem þú treystir um hugsanir þínar og tilfinningar. Oft sjáum við nýjar leiðir og lausnir með því að tala upphátt um það sem við upplifum og það dregur líka úr einmanakennd og bætir líðan samkvæmt rannsóknum. Sumum finnst betra að ræða sín hjartans mál við utanaðkomandi fagaðila en hjá Krabbameinsfélaginu er til að mynda hægt að panta tíma hjá faglegum ráðgjafa þér að kostnaðarlausu. (Panta tíma hjá ráðgjafa)

  • Krabbamein og krabbameinsmeðferð getur fyrir marga þýtt breytingar sem reyna á. Fyrir marga er undarleg tilfinning að hafa ekki sömu orku til umráða og áður og það getur verið mikil áskorun að þurfa að hægja á sér og fækka verkefnum. Það getur líka verið erfið reynsla og haft áhrif á sjálfsmyndina að upplifa útlitslegar breytingar á líkamanum þegar svo á við.

    Það er því mikilvægt að þú leitist við að sýna þér og því sem þú upplifir mildi og þolinmæði. Reyndu að tileinka þér að tala við sjálfan þig eins og þú myndir tala við þína bestu vini eða jafnvel börnin þín. Þetta er nokkuð sem getur verið hægara sagt en gert. Stundum þarf hreinlega að fá leiðbeiningar og æfingu í að nálgast sjálfan sig og lífið af meiri mildi en Krabbameinsfélagið býður reglulega upp á námskeiðið Núvitund og sjálfsmildi.

  • Samskipti við fjölskyldu, vini og vinnufélaga eru okkur flestum dýrmæt og stuðningur þeirra getur verið ómetanlegur þegar eitthvað bjátar á. Oft verður fólkið í kringum okkur hins vegar óöruggt um sitt hlutverk og hvað skuli segja og gera í þessum aðstæðum sem getur annað hvort skilað sér í því að fólk fjarlægist eða stundum jafnvel að það fari yfir mörk í góðri viðleitni til að aðstoða. Það er því yfirleitt best að ræða opinskátt um það sem þú þarfnast mest hverju sinni. Hér er hægt að finna nánari umfjöllun um samskipti við aðra.

  • Krabbameinsmeðferð getur haft í för með sér minni orku til að umgangast fólk og taka þátt í ýmsum viðburðum. Oft hefur krabbameinsmeðferð líka bælandi áhrif á ónæmiskerfið, sérstaklega á ákveðnum tímapunktum eftir hverja lyfjagjöf. Því er yfirleitt mælt með að þeir sem eru í krabbameinslyfjameðferð forðist margmenni og þá sem eru kvefaðir eða lasnir. Það er hins vegar ekki gott að einangra sig um of ef mögulega er hægt að komast hjá því. Félagsleg tengsl geta dregið úr depurð og kvíða og bætt almenna líðan. Að halda tengslum við annað fólk getur líka dregið úr streitu, einmanakennd og gefið lífi okkar merkingu og gleði. Það getur verið gott að hafa í huga að hitta ekki of marga í einu og kannski þarftu líka að gefa þér leyfi til að fara fyrr eða láta vita þegar gott er komið og þú þarft hvíld. Ef þú treystir þér ekki eða átt helst ekki að vera í líkamlegri nálægð við fólk er um að gera að notast við símtöl eða jafnvel myndsímtöl.

  • Það að gera eitthvað skapandi getur verið mjög hjálplegt hvort sem það er til dæmis að teikna, lita, mála, leira, spila á hljóðfæri, prjóna eða skrifa texta. Sköpun getur hjálpað við að róa hugann og hjálpað okkur að vera í núinu. Sköpun getur líka verið góð leið til tjá og finna tilfinningum sínum farveg.

  • Rannsóknir benda til að hugleiðsla og slökun geti haft margvíslegan, jákvæðan ávinning fyrir heilsu okkar og líðan. Með ástundun er hægt að bæta svefn og svefngæði, draga úr streitu, depurð og kvíða. Einnig hefur sýnt sig að regluleg iðkun dregur úr neikvæðum hugsanamynstrum og hefur góð áhrif á hjartaheilsu.

    Krabbameinsfélagið býður upp á opna tíma í Jóga Nidra djúpslökun alla þriðjudaga og fimmtudaga. Nánari upplýsingar hér.

    Í vellíðunarhorninu er er hægt að hlusta á upptökur með leiddri hugleiðslu og slökun en einnig er hægt að hlusta í Spotify undir „Hlaðvarp Krabbameinsfélagsins“.

  • Jafnvel þótt lífið sé ef til vill snúið fyrir þig og þína um þessar mundir er samt mikilvægt að leitast við að rækta gleðina. Það að geta hlegið og séð skondnu hliðar lífsins er mikilvægara en okkur grunar. Hlátur og gleði léttir á spennu, streitu og vanlíðan. Þegar við hlægjum innilega framleiðum við hormón sem draga úr verkjum og framkalla slökun og vellíðan. Stundum þarf hreinlega að setja gleði og léttleika markvisst á dagskrá, til dæmis með því að horfa á góða gamanmynd eða skemmtilega leiksýningu, dansa, syngja eða að vera innan um skemmtilegt fólk. Það er gott að reyna að hafa alltaf eitthvað framundan til að hlakka til og það þarf ekki alltaf að vera eitthvað stórt.

  • Rannsóknir hafa sýnt fram á að að þeir sem að stunda reglulega hreyfingu í krabbameinsmeðferð glíma við færri aukaverkanir og eru fljótari að ná upp þreki eftir að meðferð lýkur. Hér er hægt að lesa meira um hreyfingu.

  • Hér er hægt að lesa sér til um mataræði sem getur verið hjálplegt við aukaverkunum vegna krabbameinsmeðferðar. Kynntu þér vellíðunarhornið þar sem hægt er að hlusta á fyrirlestra meðal annars um næringu og hreyfingu.

Ráð­gjöf og stuðn­ing­ur þér að kostn­að­ar­lausu

Þjónusta félagsráðgjafa, hjúkrunarfræðinga og sálfræðinga Krabbameinsfélagsins er í boði í greiningarferli, meðferð eða að lokinni meðferð, á íslensku, ensku og pólsku. Þjónustan er líka fyrir aðstandendur.