Við getum upprætt leghálskrabbamein á Íslandi
Árlega er 17. nóvember tileinkaður átaki á heimsvísu sem miðar að útrýmingu leghálskrabbameins.
Árið 2018 setti Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin ( WHO) fram áætlun um að útrýma leghálskrabbameini sem lýðheilsuvanda á heimsvísu. Markmiðið er að nýgengi leghálskrabbameina verði minna en 4 tilfelli á hverjar 100.000 konur.
Skimun fyrir leghálskrabbameini hófst hér á landi 1964 og hefur haft mikil áhrif til að draga úr nýgengi og dánartíðni vegna meinsins. Enn greinast þó hátt í 20 konur árlega og 3-5 deyja að jafnaði hvert ár vegna leghálskrabbameins.
Hvað orsakar leghálskrabbamein?
Um 99% leghálskrabbameina stafa af HPV-veirum sem smitast helst með kynlífi. Veirurnar geta einnig valdið fleiri tegundum krabbameina t.d. í endaþarmi og koki en algengast er þó leghálskrabbamein ( Nánar um leghálskrabbamein).
Ísland hefur forsendur til að verða fyrsta landið sem útrýmir leghálskrabbameini
Góð mæting kvenna í leghálsskimun og víðtæk þátttaka í HPV-bólusetningum eru lykilþættir svo útrýma megi leghálskrabbameini.
Til að uppræta megi leghálskrabbamein skiptir miklu máli að fleiri konur mæti í skimun. Því er verulega jákvætt að nýjustu tölur um þátttöku í skimun sýna að þátttakan hefur aukist nokkuð og var 64% árið 2024 miðað við 61% árið 2023. Þátttakan er þó enn töluvert undir viðmiðunarmörkum um 75% mætingu í skimun. Með betri mætingu kvenna myndi enn betri árangur nást.
Hinn þátturinn sem skiptir meginmáli svo takmarkið náist er HPV-bólusetning og hafa yfirvöld tekið mörg skref á síðustu misserum í átt að því að efla hana enn frekar frá því hún hófst árið 2011 þegar byrjað var að bólusetja 12 ára stúlkur. Árið 2023 var svo bæði tekið í notkun öflugra bóluefni og farið að bólusetja 12 ára drengi. Þessu til viðbótar hefur nú í ár verið veitt fjármagni til að bólusetja óbólusetta drengi upp að 18 ára aldri með það að markmiði að ná til sem flestra drengja sem fæddir eru árin 2007-2010.
Lífskraftur leggur sitt af mörkum
Góðgerðarfélagið Lífskraftur, í samstarfi við Krabbameinsfélagið og 66°N hrundi af stað átaki í byrjun október með það að markmiði að útrýma leghálskrabbameini og stóðu þá m.a. fyrir Leggöngu í Kerlingarfjöllum.
