Sumarhappdrætti Krabbameinsfélagsins
Nú hafa verið sendir út miðar í sumarhappdrætti Krabbameinsfélagsins. Krabbameinsfélagið hefur allt frá árinu 1955 staðið fyrir happdrætti sem hefur verið veigamikil tekjulind fyrir starf félagsins og átt þátt í uppbyggingu þess og þróun. Fræðsla um krabbamein og krabbameinsforvarnir, útgáfa fræðslurita, ráðgjöf og stuðningur við fólk með krabbamein og aðstandendur, rannsóknir og vísindastarf eru allt þættir í fjölbreyttri starfsemi félagsins sem byggist fyrst og fremst á stuðningi almennings og fyrirtækja.
Krabbameinsfélag höfuðborgarsvæðisins hefur umsjón með rekstri og framkvæmd happdrættisins og nýtir tekjur af því fyrst og fremst til fræðslu- og forvarnastarfs t.d stóð félagið, á síðustu árum, fyrir hvatningarátakinu „Skrapp í skimun“
Í sumarhappdrættinu fá karlar senda happdrættismiða. Vinningar eru 351 talsins að verðmæti tæpar 67 milljónir króna.
- Aðalvinningurinn, að verðmæti 7.490.000 krónur, BYD SEAL U rafmagnsbíll.
- Fjörtíu vinningar eru úttektir frá Erninum, hver að verðmæti 500.000 krónur.
- Sextíu og fimm vinningar eru úttektir frá Fjallakofanum, hver að verðmæti 75.000 krónur.
- 100 gjafabréf frá Icelandair, hvert að verðmæti 200.000 krónur.
- 145 gjafabréf frá Kringlunni eða Smáralind, hvert að verðmæti 100.000 krónur.
Vinningarnir eru skattfrjálsir.
Dregið verður 17. júní og verða vinningstölur birtar á vefsíðu félagsins í lok dags 18. júní og í Morgunblaðinu þann 19. júní.
Krabbameinsfélagið hvetur fólk til að bregðast vel við og kaupa heimsenda miða. Happdrættismiðarnir eru sendir sem greiðsluseðlar til að auðvelda þeim sem vilja taka þátt í happdrættinu að greiða miðana í heimabanka og eiga möguleika á glæsilegum vinningum.
Greiddur heimsendur miði er með tvöfaldar vinningslíkur (tvö miðanúmer). Miðar eru einnig til sölu í vefverslun Krabbameinsfélagsins og á skrifstofu félagins í Skógarhlíð 8. Frekari upplýsingar eru gefnar í síma 540 1928. Hægt er að hringja í það númer ef óskað er eftir að kaupa miða með greiðslukorti. Krabbameinsfélagið hefur haft það fyrir venju í marga áratugi að hringja í vinningshafa heimsendra miða og tilkynna þeim um vinninga.
Baráttan gegn krabbameinum er brýn og fyrirséð er að krabbameinum fjölgi mjög mikið á næstu árum, fyrst og fremst vegna breyttrar aldurssamsetningar þjóðarinnar.
Krabbamein varða okkur öll. Þriðji hver Íslendingur fær krabbamein einhvern tíma á lífsleiðinni og á hverju ári greinast að meðaltali um 2.000 manns með krabbamein hér á landi Um fjórðung dauðsfalla á Íslandi má rekja til krabbameina. Lífslíkur hafa hins vegar aukist mjög mikið sem má þakka vísindastarfi sem hefur leitt til betri skilnings á orsökum krabbameina, forvörnum, greiningu á fyrri stigum og markvissri meðferð. Í árslok 2023 voru um 18.500 einstaklingar á lífi sem hafa fengið krabbamein.
Maí 2025.