Beint í efni
Hönnuður Bleiku slaufunnar 2025

Kynn­um til leiks Bleiku slaufuna 2025

Hönnuður slaufunnar í ár er Thelma Björk Jónsdóttir. Hún hefur mjög persónulega tengingu við Bleiku slaufuna, en hún greindist með brjóstakrabbamein með meinvörpum árið 2024 og lifir því með krabbameini.

Thelma Björk er menntaður fatahönnuður, listakona og eigandi Thelma design, sem fagnar tuttugu ára starfsafmæli í ár.

Bleika slaufan 2025
Sparislaufan 2025
Bleika slaufan og Sparislaufan 2025

Bleika slaufan í ár er rósetta sem táknar verðlaunagrip sem nældur er í hjartastað. Sparislaufan er gullhúðað koparhálsmen í samlitri keðju með rósbleikum Swarovski. Litur kristalsins minnir á róskvars og táknar því hjartað. Hálsmenið kemur í afar fallegum gjafaumbúðum.

Verðlaunagripur tileinkaður öllum þeim hetjum sem lifa með krabbameini

Thelma Björk vill vera fyrirmynd fyrir aðrar konur sem eru með langvinnt og ólæknandi krabbamein og sýna fram á að það er hægt að lifa lífinu í gleði og þakklæti. 

Thelma Björk segir uppvaxtarárin hafa mótað hana mikið og að henni gangi best að finna samhengi hlutanna þegar hún fær að nota hendurnar til að skapa og skilja. „Það róaði mig sem barn að gera handavinnu með ömmu,“ segir Thelma Björk, en móðuramma hennar, Brynhildur Friðriksdóttir, kenndi henni útsaum, bróderí, hekl og prjón. „Yfir handavinnunni sagði hún mér sögur af sjálfri sér og formæðrum okkar.“     

Slaufan í ár er rósetta, en Thelma Björk vinnur mikið með þær í sinni hönnun og hefur alltaf verið heilluð af hlutverki þeirra. Þegar hún var að vinna hugmyndavinnuna fyrir Bleiku slaufuna leitaði hún í handavinnukisturnar sem hún erfði eftir ömmu sína og efst í einum bunkanum lá tilbúin slaufa eins og skilaboð til hennar. „Ég hugsaði með mér að hún ætlaði að vera með mér í þessu verkefni,“ segir Thelma Björk. „Ég tók slaufuna og gerði hana að minni, en þetta er í rauninni samstarfsverkefni okkar ömmu.“  

Efniviður slaufunnar í ár er textíll og sækir innblástur í handverkshefðina sem er alltumlykjandi í listsköpun Thelmu Bjarkar. Rósettan sjálf táknar verðlaunagrip sem nældur er í hjartastað, tileinkaður öllum þeim hetjum sem lifa með krabbameini. 

Thelmu Björk langaði til að hanna Bleiku slaufuna vegna þess að starfsemi Krabbameinsfélagsins hefur skipt sköpum fyrir hana og fjölskyldu hennar. „Ég elska starf Krabbameinsfélagsins og þjónusta þess hefur hjálpað okkur fjölskyldunni mikið,“ segir Thelma Björk. „Mér finnst mikill heiður að vera partur af þessari arfleifð, þessum hópi sem fær að hanna slaufuna.“ 

Sparislaufan

Undanfarin ár hafa verið framleiddar tvær útgáfur af Bleiku slaufunni; almenna slaufan sem er næla og sparislaufan sem er hálsmen og kemur í takmörkuðu upplagi. 

Sparislaufan í ár er gullhúðað koparhálsmen í samlitri keðju með rósbleikum Swarovski kristal og slaufu sem hægt er að losa frá. Litur kristalsins minnir á róskvars og táknar því hjartað um leið og hann kallast á við lit rósettunnar sem næld er í hjartastað. Hálsmenið er í senn stílhreint og fallegt og kemur í afar fallegum gjafaumbúðum.  

Sparislaufan hefur oft selst upp á fyrstu dögum átaksins og því er gott að tryggja sér eintak í tíma.

Fjölskylda Thelmu

Hvar fæst Bleika slaufan?

Bleika slaufan verður í sölu frá 30. september til 25. október í verslun og vefverslun Krabbameinsfélagsins og hjá hátt í 400 söluaðilum um land allt.  

Sparislaufuna má nálgast í verslun og vefverslun Krabbameinsfélagsins, auk þess sem hún er til sölu í Mebu skartgripaverslun í Kringlunni og Smáralind. 

Við hvetjum ykkur til að fylgjast með hönnun Thelmu Bjargar á insta: designbythelma og thelmabjork.com

Nánari upplýsingar má nálgast á bleikaslaufan.is.