Beint í efni
Maður hjá sálfræðingi

Fleiri grein­ast með krabba­mein og fleiri lifa lengi með þau

Krabbameinsfélagið hefur nú birt tölur úr Krabbameinsskrá Íslands fyrir árið 2024 og nýja spá sem nær til ársins 2045. Nýgengi heldur áfram að aukast í takt við fólksfjölgun og hækkandi meðalaldur, en lifendum fjölgar einnig verulega.

Um þriðjungur Íslendinga greinist með krabbamein á lífsleiðinni, en á tímabilinu 2020-2024 greindust árlega að meðaltali 2.055 einstaklingar með krabbamein hér á landi. Það er fjölgun um 500 fleiri árlega miðað við tölur fyrir 10 árum síðan. Ýmsar skýringar liggja þar að baki, meðal annars aukinn mannfjöldi, aukin krabbameinsáhætta, skimanir, bætt greiningartæki en fyrst og síðast hækkandi meðalaldur þjóðarinnar.

Aukning krabbameinstilfella hlutfallslega mest á Íslandi

Spáð er 63% fjölgun nýrra krabbameinstilfella til ársins 2045, en það jafngildir því að árið 2045 munu árlega greinast um 3.500 einstaklingar í stað 2.000 nú. Þessi mikla fjölgun krabbameinstilfella á Íslandi er hlutfallslega mun meiri en á öllum hinum Norðurlöndunum og í löndum Evrópusambandsins, en það skýrist fyrst og fremst af aldurssamsetningu íslensku þjóðarinnar og því hversu fjölmenn eftirstríðsára kynslóðin er hér á landi.

Markvissar forvarnaraðgerðir og efling lýðheilsu geta dregið úr líkum á því að spáin raungerist að fullu. Að óbreyttu mun þessi þróun þó hafa í för með sér verulega aukna þjónustuþörf og bregðast þarf við með því að efla heilbrigðiskerfið og tryggja gæði og öryggi þjónustunnar og gæta þess að biðtímar lengist ekki.

96% aukning í hópi lifenda

Krabbamein eru algengasta ástæða ótímabærra dauðsfalla hér á landi og enn yfir fjórðungur dánarmeina á Íslandi. Árlega deyja um 640 manns af völdum krabbameina. Hlutfallsleg lifun heldur þó áfram að aukast og fimm ára lífshorfur hafa meira en tvöfaldast frá 1960. Búast má við um 96% aukningu í hópi lifenda, þ.e. þeirra sem eru á lífi eftir að hafa greinst með krabbamein hvort sem að meinið telst læknað eða ekki.

Þessi fjölmenni hópur, sem mun telja tæplega 38 þúsund manns árið 2045 mun þurfa á einhverri þjónustu að halda til að mæta langvinnum afleiðingum krabbameina. Á þessu ári setti Krabbameinsfélagið af stað viðamikla rannsókn á lífsgæðum eftir greiningu krabbameins í samstarfi við Háskóla Íslands og Landspítala og hefur þátttaka í rannsókninni verið vonum framar. Félagið hefur einnig sett málefni hópsins á dagskrá með málþingi, fundum og námskeiðum og frekari vinna er í gangi, meðal annars í samstarfi við Landspítala. Niðurstöður lífsgæðarannsóknarinnar munu nýtast til að þróa þjónustuúrræði fyrir þessa einstaklinga, en ljóst er að þar mun þurfa að efla samstarf þvert á heilbrigðisstofnanir og þjónustustig.