Beint í efni

Fimm stað­reynd­ir um áfengi og krabba­mein

Hér má finna upplýsingar um tengsl áfengisneyslu og ýmissa tegunda krabbameina.

1. Áfengi getur valdið a.m.k. sjö tegundum krabbameina

Áfengi getur m.a. valdið krabbameini með skemmdum á DNA. Þekkt er að neysla áfengis eykur hættuna á krabbameinsmyndun í:

 • munnholi
 • koki og hálsi
 • vélinda
 • barkakýli
 • lifur
 • ristli og endaþarmi
 • brjóstum kvenna

2. Mismunandi er hvaða krabbamein greinast hjá körlum og konum

Á Evrópusvæði Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar (WHO) árið 2018 reyndust algengustu
tegundir krabbameina af völdum áfengisneyslu vera brjóstakrabbamein (hjá konum)
og ristilkrabbamein (hjá körlum).

 • Fleiri en 100.000 krabbameinstilfelli hjá körlum í Evrópu mátti rekja til neyslu áfengis árið 2018.
 • Nærri 70.000 krabbameinstilfelli hjá konum í Evrópu mátti rekja til neyslu áfengis árið 2018.
 • Nærri 92.000 dauðsföll af völdum krabbameina í Evrópu mátti rekja til neyslu áfengis árið 2018.

Á árinu 2018 olli neysla áfengis u.þ.b.:

 • 45.000 tilfellum og 12.100 dauðsföllum tengdum brjóstakrabbameini (hjá konum).
 • 59.200 tilfellum og 28.200 dauðsföllum tengdum ristilkrabbameini (hjá körlum og konum).

3. Hættan á krabbameini af völdum áfengis eykst með aukinni neyslu

Allar tegundir áfengra drykkja, þar á meðal bjór, vín og sterkt áfengi, geta valdið krabbameini. Engin örugg mörk eru á neyslu áfengis, hættan er fyrir hendi strax við neyslu lítils magns og eykst umtalsvert eftir því sem meira áfengis er neytt.

Fleiri en eitt af hverjum tíu krabbameinstilfellum tengdum áfengisneyslu á Evrópusvæði WHO á árinu 2018 mátti tengja daglegri neyslu þótt aðeins væri um að ræða:

 • eina stóra bjórflösku (500 ml) eða
 • tvö vínglös (200 ml) eða
 • 60 ml af sterku áfengi

4. Notkun tóbaks og áfengis margfaldar hættuna á krabbameini 

Fólk sem neytir bæði áfengis og tóbaks er fimm sinnum líklegra til að fá krabbamein í munnholi, koki, barkakýli og vélinda, samanborið við þá sem neyta eingöngu áfengis eða eingöngu tóbaks. Fyrir þá sem drekka mikið áfengi að staðaldri er áhættan allt að 30 sinnum hærri.

5. Hægt er að fyrirbyggja krabbamein af völdum áfengisneyslu

Minni áfengisneysla dregur úr áhættunni á krabbameini.

Lagaákvæði sem

 • hækka verð áfengis,
 • banna eða setja hömlur á markaðssetningu áfengis í hvers kyns miðlum,
 • takmarka aðgengi að áfengi

geta stuðlað að minni neyslu og fækkun krabbameina af völdum áfengis.

WHO styður eindregið setningu lagaákvæða um viðvörunarmerkingar á áfengum drykkjum svo almenningur sé meðvitaður um áhættuna og geti tekið upplýstar ákvarðanir, t.d. um að draga úr eða hætta neyslu áfengis.

Saman getum við stuðlað að heilbrigðari Evrópu, lausa við þann skaða sem áfengi veldur.

Frekari upplýsingar og heimildir: „Alcohol and Cancer in the WHO European Region: an appeal for better prevention“ (2020).
© Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin 2021. Sum réttindi áskilin. Leyfi: CC BY-NC-SA 3.0 IGO.
Umsjón: Krabbameinsfélag höfuðborgarsvæðisins.