Íbúðir

Húsnæði er í boði fyrir fólk utan af landi á meðan á krabbameinsmeðferð stendur

Íbúðir Krabbameinsfélagsins eru átta og allar staðsettar á Rauðarárstíg 33 í Reykjavík. Þær eru ætlaðar fyrir sjúklinga og aðstandendur meðan á meðferð stendur. Landspítalinn annast rekstur og úthlutun íbúðanna. Umsýslugjald fyrir íbúðirnar er 2.200 kr. á sólarhring.

Hægt er að sækja um endurgreiðslu hjá sumum stéttarfélögum. Einnig styðja flest krabbameinsfélög á landsbyggðinni fólk af sínu svæði þegar kemur að kostnaði við ferðir og dvöl að heiman vegna meðferða. 

045

Sótt er um afnot af íbúðunum á móttöku Geisladeildar Landspítalans sími 543 6800.

Íbúðrinar eru átta, Krabbameinsfélagið á sex íbúðir með Rauða krossi Íslands, en tvær eru alfarið í eigu Krabbameinsfélagsins. 

Mig langar til að skrifa og þakka fyrir afnot af íbúðinni við Rauðarárstíg sem bróðir minn, Þórhallur Arason og ég fengum að búa í í lok síðasta árs og frammí janúar á þessu ári. Þetta var algerlega ómetanlegt fyrir hann sem býr úti á landi og mig sem kom frá Danmörku til að vera með honum á þessum erfiða tíma.

Íbúðin er frábærlega staðsett, vel búin húsgögnum og í henni er allt til alls. Þjónustan sem við fengum var frábær og er vel um íbúðina hugsað.

Með hjartans þökkum og kærum kveðjum, Svava Aradóttir.

Leiðbeiningar til dvalargesta í íbúðum fyrir krabbameinssjúklinga og aðstandendur þeirra að Rauðarárstíg 33 í Reykjavík

 

  • Eign og rekstur. Íbúðirnar eru átta. Sex þeirra eru eign Krabbameinsfélags Íslands og Rauða kross Íslands, en tvær eru alfarið eign Krabbameinsfélagsins. Landspítali annast rekstur íbúðanna.
  • Húsaleiga. Greiða skal 2.200 krónur fyrir hvern dvalardag. Reikningar eru sendir um næstu mánaðamót eftir að dvöl lýkur. Mörg krabbameinsfélög á landsbyggðinni og sumir sjúkrasjóðir stéttarfélaga taka þátt í kostnaðinum.
  • Dvalartími. Hver íbúð er ekki leigð lengur en í átta vikur.
  • Lyklar. Dvalargestur fær tvö sett af lyklum. Ef þeir týnast þarf að hafa samband við móttöku geislameðferðar krabbameina á Landspítalanum við Hringbraut.
  • Reykingar. Stranglega er bannað að reykja í íbúðunum og einnig á svölunum, á göngum og í bílskýli.
  • Dýr. Ekki er heimilt að hafa gæludýr í íbúðunum.
  • Gluggar og kranar. Á kvöldin og þegar íbúð er yfirgefin þarf að ganga tryggilega frá festingum á gluggum og svalahurðum og skrúfa fyrir vatnskrana.
  • Ræsting. Íbúð er þrifin áður en hún er afhent. Dvalargestur og aðstandendur hans eru beðnir að ganga snyrtilega um, taka af rúmum og tæma ísskáp þegar dvöl lýkur.
  • Þvottur. Áður en lyklar eru afhentir hefur verið skipt um á rúmum. Hrein rúmföt, handklæði, diskaþurrkur o.fl. er í skápum. Óhreint lín á að setja í sérstaka poka. Þeir eru teknir á þriðjudögum og komið með hreint í staðinn.
  • Rúm. Gestarúm eru í íbúðunum. Ekki er ætlast til þess að sófar í stofum séu notaðir sem svefnpláss.
  • Símanotkun. Ekki eru símar í íbúðunum og þurfa gestir því að nota eigin framsíma við símanotkun. Í íbúðunum er netsamband og sjónvarp.
  • Póstur. Í anddyri eru póstkassar, merktir hverri íbúð.
  • Rafmagn. Mikilvægt er að dvalargestir slökkvi á útvarpi, sjónvarpi og ljósum þegar farið er út úr íbúðunum.
  • Skemmdir. Óskað er eftir því að tilkynnt sé við brottför ef leirtau hefur brotnað eða aðrar skemmdir orðið á íbúð eða innanstokksmunum. Einnig þarf að láta vita um það sem laga þarf (perur, vaskar o.s.frv.) Að öllu jöfnu verður dvalargestur ekki látinn greiða fyrir óhöpp sem leiða til tjóns á munum.
  • Upplýsingar. Allar nánari upplýsingar má fá á móttöku geislameðferðar krabbameina á Landspítala við Hringbraut í síma 543 6800 og 543 6801. Utan skrifstofutíma má í neyðartilvikum hringja í síma 543 1800 (öryggisverðir á Landspítala).

Var efnið hjálplegt?