Beint í efni

Mun hjálpa við að velja réttu sjúk­lingana til með­ferðar

Sigurður Yngvi Kristinsson og Jón Þórir Óskarsson skoða þróun mergæxla úr þekktu forstigi yfir í sjúkdóm með erfið einkenni og lífshættu.

Mergæxli er krabbamein sem á upptök sín í beinmerg. Rúmlega 30 einstaklingar greinast að meðaltali á ári á Íslandi og er meðalaldur við greiningu 70 ár. Sjúkdómurinn er ólæknandi en horfur þeirra sem greinast hafa farið batnandi síðustu ár.

Oft vaknar grunur um mergæxli við venjulega blóðrannsókn, og er það þá helst ef um er að ræða blóðleysi samfara hækkun á blóðsökki. Ef grunur vaknar eru gerðar frekari rannsóknir.

Alþjóðlegar leiðbeiningar í dag eru á þá leið að ekki sé gefin meðferð ef sjúkdómurinn er einkennalaus og rannsóknir leiða ekki í ljós truflanir á starfsemi líkamans af völdum hans. Hins vegar er að verða viðmiðabreyting þar sem meðferð er stundum gefin áður en einkenni gera vart við sig.

Sigurður Yngvi Kristinsson, prófessor við læknadeild Háskóla Íslands og sérfræðingur á Landspítala, leiðir rannsóknina Blóðskimun til bjargar en tilgangur hennar er að auka þekkingu á náttúrulegum gangi einkennalauss forstigs mergæxlis og hvaða áhrif slík skimun hefur á lífsgæði fólks og batahorfur þeirra sem þróa mergæxli. Í undirrannsókn sem hefur hlotið styrk úr Vísindasjóði og unnin verður af Jóni Þóri Óskarssyni doktorsnema á að nota frumuflæðisjártækni til skoða hvernig mergæxli þróast úr þekktu forstigi yfir í sjúkdóm með erfið einkenni og lífshættu.

„Verkefni sem hér um ræðir mun hjálpa verulega við að velja réttu sjúklingana til meðferðar auk þess að það mun bæta verulega gæði mats á stöðu sjúklings og hjálpa þannig við að stýra meðferð og eftirfylgni. Þetta getur bætt verulega lífslíkur og lífsgæði þessara sjúklinga en mikilvægt er að einungis séu meðhöndlaðir þeir sem eru í mestri hættu á að þróa með sér sjúkdóminn. Verkefnið mun einnig veita nýja innsýn í hlutverk ónæmisfrumna í nærumhverfi mergæxlisfrumna í sjúkdómsframvindu,“ segir Sigurður Yngvi. Hann bætir við að þau sýni og gögn sem safnast hafa í rannsókninni Blóðskimun til bjargar séu einstök á heimsvísu og að með því að nota gögnin og sýnin vel megi reikna með að hægt sé að bæta eldri aðferðir og þróa nýja tækni til að meta ástand og horfur sjúklinga mun betur en áður.

Verkefnið Klínískt notagildi frumuflæðisjárrannsókna í forstigum mergæxlis og áhrif nærumhverfis mergæxlisfrumna á sjúkdómsframvindu hlaut 9,2 milljóna króna styrk úr Vísindasjóði Krabbameinsfélagsins árið 2021, 6 milljóna króna styrk árið 2022 og 7,8 milljóna króna styrk 2023.

Framvinda (mars 2022)

Til þessa hafa verið greind sýni úr 205 þátttakendum og voru fyrstu niðurstöður úr verkefninu kynntar nýverið á árlegu þingi ameríska blóðlæknafélagsins (American Society of Hematology) þar sem fjöldi mergæxlisfrumna í blóði einstaklinga á öllum stigum sjúkdómsins var metinn, auk þess sem núverandi módel fyrir áhættustigun á mallandi mergæxli (smoldering multiple myeloma) voru borin saman í fyrsta skipti í skimuðu þýði.

Hér að neðan má sjá niðurstöðurnar sem voru kynntar á ameríska málþinginu:

Prevalence of Smoldering Multiple Myeloma: Results from the Iceland Screens, Treats, or Prevents Multiple Myeloma (iStopMM) Study

Monitoring of Circulating Tumor Plasma Cells in Patients with Precursor Conditions of Multiple Myeloma: Data from the Prospective Iceland Screens, Treats, or Prevents Multiple Myeloma (iStopMM) Study