Beint í efni

Krabba­meins­frumur feli sig fyr­ir ónæmis­kerfinu

Erna Magnúsdóttir rannsakar ferla sem auka skilvirkni ónæmiskerfisins í að drepa æxlisfrumur.

Waldenströmssjúkdómur er sjaldgæfur sjúkdómur. Um 3 milljónir einstaklinga eru greindar með Waldenströmssjúkdóm á hverju ári í heiminum, en sjúkdómurinn er ólæknandi hægfara krabbamein B-eitilfruma. 

Erna Magnúsdóttir, sameindalíffræðingur og dósent við læknadeild Háskóla Íslands, hefur einbeitt sér mjög að sjúkdómnum síðustu ár. Verkefnið Sameindaferlar að baki BLIMP1 og EZH2 miðlaðri lifun í Waldenströmsæxlum hefur hlotið styrki úr Vísindasjóði Krabbameinsfélagsins í þrígang: 10 milljónir króna árið 2019, 6 milljónir króna árið 2018 og 5 milljónir króna árið 2017.

Fyrstu árin fóru í að kanna genastjórnun og mögulega samverkan stjórnpróteinanna BLIMP1 og EZH2 í Waldenströmsæxlisfrumum, sem Erna taldi líklegt að væru nauðsynlegir þættir fyrir lifun frumanna og því möguleg lyfjamörk. Þegar þau voru að rannsaka þessa þætti komust þau m.a. að því að þeir stjórna því hvort krabbameinsfrumurnar geti falið sig fyrir ónæmiskerfinu. Það var óvænt uppgötvun en mikilvæg og niðurstöðurnar fengust birtar í virtu alþjóðlegu vísindatímariti.

„Við höfum með hjálp styrkja frá Krabbameinsfélaginu uppgötvað þætti sem hafa áhrif á það hvort frumur sjúkdómsins lifi eða deyi, m.a. í samhengi við ónæmismeðferð.“

Síðasta árið fór í að rannsaka nánar áhrif þessara þátta á eftirlit með frumuskiptingu með það í huga að skilja betur hvernig má koma í veg fyrir að frumur sjúkdómsins lifi af.

„Stuðningur Krabbameinsfélagsins við þetta verkefni hefur skipt sköpum fyrir okkur og hjálpað okkur að afhjúpa ferla sem auka skilvirkni ónæmiskerfisins í að drepa æxlisfrumur. Það er von okkar að þessar niðurstöður leiði til fjölbreyttari meðferðarmöguleika í sjúkómnum.“

Í myndbandinu segir Erna frá verkefninu þegar hún tók við fyrsta styrknum árið 2017.