Aðferð til að rækta krabbameinsfrumur úr fólki
Bylgja Hilmarsdóttir þróar aðferð til að rækta briskrabbameinsfrumur við aðstæður sem líkjast því sem gerist í líkamanum.
Horfur fólks sem greinist með briskrabbamein eru því miður oft slæmar. Bylgja Hilmarsdóttir, náttúrufræðingur við meinafræðideild Landspítala, kom heim úr námi erlendis árið 2018 og hófst þegar handa við að undirbúa rannsóknina sem hefur hlotið styrk Vísindasjóðs Krabbameinsfélagsins.
„Við erum að þróa nýja aðferð til að rækta briskrabbameinsfrumur. Við ræktum þær í þrívíðu geli og líkjum eftir þeim aðstæðum sem eru í líkamanum.“
Bylgja telur að það taki um ár að setja upp, þróa og prófa aðferðina. Ætlunin er að nota hana í grunnrannsóknir á briskrabbameini, t.d. til að rannsaka hvað veldur því að briskrabbameinsfrumur mynda þol við meðferð. Ef aðferðin reynist nógu góð er ætlunin á seinni stigum að nota hana til að rækta frumur úr einstaklingum sem kljást við briskrabbamein.
„Það sem lofar svo góðu með þessa aðferð er að með henni getum við ræktað krabbameinsfrumur beint frá sjúklingum í lengri tíma á þann hátt að frumurnar viðhalda þeim eiginleikum sem upprunaæxlið í sjúklingnum hefur. Þá er hægt að prófa að nota ólík lyf á frumurnar og skoða hvort við getum spáð fyrir hvaða lyfjameðferð virkar fyrir þennan tiltekna sjúkling.“
Bylgja hlaut 3,1 milljónar króna styrk úr Vísindasjóði Krabbameinsfélagsins árið 2020 og 3,2 milljóna króna styrk árið 2021 fyrir verkefnið Þróun örvefjalíkana úr briskrabbameini og notkun þeirra sem módel fyrir notkun PARP hindra í meðferð.
Framvinda (mars 2021):
Verkefnið miðar að því að þróa þrívíð vefjaræktunarmódel (e. organoids) fyrir briskrabbamein sem ætlunin er að nota til að meta lyfjanæmi krabbameinsfrumna. Meginmarkmið verkefnisins var að setja upp frumuræktunarmódel og rannsaka hvort æðaþel styður við og hraðar vexti BK organoida í þrívíðri rækt. Í framhaldi var markmiðið að nota módelið til að meta næmni æxlisfrumna við krabbameinslyfjum. Í verkefninu voru tvívíðar frumuræktir úr tveimur briskrabbameinsfrumulínum og æðaþelsfrumum settar upp og bestaðar. Í framhaldi voru settar upp þrívíðar frumuræktir með og án HUVEC-æðaþelsfrumna.
Niðurstöður verkefnisins sýna að æðaþel í þrívíðu geli styður við og eykur vöxt briskrabbameinsfrumna. Einnig er sýnt fram á að lyfjanæmispróf sem sett var upp metur næmni frumna við lyfjahindra í tvívíðri rækt með nákvæmum hætti. Áframhaldandi vinna í verkefninu mun snúa að því að skoða hvernig æðaþel hefur áhrif á lyfjanæmi frumna í þrívíðri rækt, en frumniðurstöður gefa til kynna að svo sé ekki og því sé hægt að nota samrækt BK-frumna og æðaþelsfrumna í lyfjaprófunum. Einnig verða áhrif æðaþels á svipgerð briskrabbameinsfrumna skoðuð.