Beint í efni

Nánar um sorg barna

Börn syrgja gjarnan í lotum. Þess á milli leita þau huggunar og öryggis í leik og daglegu amstri. Þau þarfnast athygli og stuðnings yfir lengri tíma.

Nýjar lagagreinar tóku gildi í lok síðasta árs (skrifað árið 2020) þar sem réttindi barna sem missa foreldri og ábyrgð samfélagsins gagnvart þessum börnum eru betur skilgreind. Í nýju lagagreinunum er heilsugæslan skilgreind sem lykilaðili í eftirfylgni barna sem missa foreldri. Læknir sem skrifar dánarvottorð einstaklings, sem er foreldri barns undir 18 ára, er samkvæmt lögunum skyldugur til að tilkynna þeirri heilsugæslu þar sem barnið er skráð að foreldri barns á þjónustusvæði hennar hafi nýlega látist. Heilsugæslustöðin er þar með skyldug til að athuga hagi barnsins og veita þann stuðning sem þörf er á.

Sorg barna

Börn syrgja gjarnan í lotum. Þess á milli leita þau huggunar og öryggis í leik og daglegu amstri. Þau þarfnast athygli og stuðnings yfir lengri tíma. Algengt er að sorgin taki sig upp, jafnvel löngu síðar, þá gjarnan í tengslum við ákveðna atburði eins og jól eða afmæli. Í samheldnum stórfjölskyldum er oft haldið vel utan um börn í þessum aðstæðum, ekki bara fyrstu tvö árin, heldur til lengri tíma. Það er börnum mikilvægt að þau séu elskuð skilyrðislaust. Börnum sem búa við slíkar aðstæður vegnar betur en börnum sem gera það ekki. Þar verður samfélagið að koma að málinu og tryggja að öll börn fái viðunandi stuðning.

Stuðningur við fjölskylduna

En fjölskylda barnsins þarf líka stuðning og handleiðslu á erfiðum stundum. Heilsugæslan mun vonandi fá svigrúm til að sinna þeim málum samhliða því að styðja barnið. En það mun taka tíma, þjálfun og fjármuni að þróa ferla til að sinna þessu verkefni vel. Þar getur faglegt ráðgjafarteymi eins og Ráðgjafarþjónusta Krabbameinsfélagsins gegnt mikilvægu hlutverki sem handleiðsluaðili, gjarna í samstarfi við önnur samtök eins og Sorgarsamtökin og samtökin Ljónshjarta.

Stuðningur við fagaðila

Krabbameinsfélagið vinnur nú að því, í samráði við heilbrigðisyfirvöld, Sorgarmiðstöðina, skólakerfið og fleiri, að koma á fót stuðnings- og handleiðsluteymi með það að meginmarkmiði að styðja við fagfólk í nærumhverfi barna sem misst hafa foreldri, ekki síst kennara og annað starfsfólk skólanna, en einnig starfsfólk heilsugæslunnar sem lögum samkvæmt á að sinna þessum börnum. Verkefnið er unnið í áföngum þar sem fyrsta skrefið er að kanna hvers konar stuðning fagfólkið telur sig helst þurfa.

Skólastjórnendur víðsvegar á landinu mega eiga von á að fulltrúar Krabbameinsfélagsins hafi samband í vor og falist eftir samstarfi við skólann varðandi þróun verkefnisins. Aðallega er um að ræða þarfagreiningu. Við viljum vita hvaða reynslu starfsfólk skólanna býr yfir og hvað það er helst sem sérþjálfað fagfólk Krabbameinsfélagsins getur aðstoðað við.

Höfundur er Ásgeir R. Helgason, dósent í sálfræði við HR og sérfræðingur hjá Krabbameinsfélaginu. asgeir@krabb.is. Grein birt í Morgunblaðinu 12. febrúar 2020.