,,Hvernig veit ég að þú deyir ekki líka?"
Eiginmaður og barnsfaðir Vilborgar Davíðsdóttur dó á besta aldri. Hún skrifaði bókina Ástin, drekinn og dauðinn um þá erfiðu reynslu. Í þessari grein skrifar hún út frá sjónarhóli barnsins.
Um 900 börn á Íslandi sem nú eru á aldrinum 0-18 ára hafa misst foreldri. Sem þýðir að þótt kannski sé ekki syrgjandi barn í bekk barnsins þíns þá eru örugglega fleiri en eitt og fleiri en tvö í leikskóla þess, grunnskólanum og/ eða framhaldsskólanum. Og vitanlega miklu fleiri sem syrgja systkini, stjúpforeldri, afa eða ömmu.
Samfélagið okkar gerir ekkert fyrir þessi börn. Ekkert net grípur þau í velferðarkerfinu, enginn fagaðili bregst við, enginn leiðir þau í gegnum myrkan skóg sorgarinnar aðrir en foreldrið sem eftir lifir og syrgir maka sinn, fallinn frá í blóma lífsins. Í sumum grunnskólum er til einhvers konar áætlun um hvernig á að bregðast við þegar fregnast að foreldri sé dauðvona eða barn hafi misst foreldri, hvernig á að segja bekkjarfélögunum og foreldrum þeirra hörmuleg tíðindi. Eftir því sem ég kemst næst er þó misbrestur á þessu og eftirfylgni sjaldnast nokkur. Barnið mætir í skólann aftur og tekst einsamalt á við heim sem er í rúst. Engin tilboð um viðtöl eða ráðgjöf, engin meðvitund um að foreldramissir í bernsku eykur mjög hættu á alvarlegum kvíða og þunglyndi. Séu erfiðleikar fyrir vegna raskana eins og ofvirkni, kvíða eða einhverfu er öruggt að þeir margfaldast.
Sorgin er eðlilegt ferli en finnist okkur fullorðna fólkinu erfitt að læra að lifa með henni, hvað má þá segja um börnin? Önnur stoðin sem heldur himninum uppi er horfin og nýr veruleiki hrynur yfir þau. Engir sálfræðingar starfa í skólunum með menntun eða innsýn í hvernig má styðja börn í sorg. Í miðju eigin áfalli standa eftirlifandi foreldrar uppi aleinir og ráðþrota um hvernig best er hægt að halda utan um börnin sín og unglingana. Dauðageigurinn getur heltekið þau, myrkfælni, sterk þörf fyrir sífellda nærveru og vitneskju um ferðir eftirlifandi foreldris, kvíði fyrir einu og öllu því hvenær sem er getur eitthvað skelfilegt komið fyrir. Það sem gat gerst einu sinni og virtist óhugsandi getur alveg eins gerst aftur. ,,Hvernig veit ég að þú deyir ekki líka?“ er ein af þeim spurningum sem eftirlifandi foreldri þarf að svara barni í sorg. Unglingar sérstaklega geta lokast inni í lamandi þögn, vilja ekki bæta á harm eftirlifandi foreldris með því að treysta því fyrir eigin vanlíðan og valda þannig óafvitandi enn auknum áhyggjum þess fullorðna.
Velferðarkerfið okkar gerir ekki ráð fyrir þessum börnum. Sálfræðiþjónusta er ekki niðurgreidd á Íslandi eins og við vitum öll, andleg heilsa og sjálfsvígshætta er ekki talin þess virði af þeim sem halda um okkar sameiginlegu pyngju. Viðtal hjá sálfræðingi kostar um 15.000 kr. og fjárhagur margra leyfir ekki slík aukaútgjöld, 2-3 í mánuði og meira ef börnin eru fleiri - nema náttúrulega að maður fái laun samkvæmt ákvörðun Kjararáðs.
Framlag ríkisins til barns sem hefur misst foreldri er einfalt meðlag, 29.469 kr. á mánuði, sem er látið heita barnalífeyrir þótt það fylgi meðlaginu upp á krónu. Gild ástæða er fyrir því að ríkið vill ekki kallast meðlagsgreiðandi. Samkvæmt barnalögum má nefnilega úrskurða meðlagsskyldan aðila til greiðslu framlaga vegna skírnar, fermingar, gleraugnakaupa, tannréttinga, sjúkdóms eða greftrunar. Þessi veruleiki skellur sérlega harkalega á foreldrum fermingarbarna. Framundan er stór stund sem ætti að skapa gleði en eftir að hafa greitt fyrir útför sem kostar í kringum eina milljón kr. er oft lítið eftir til að borga fermingarveislu og stórar gjafir einn. Sem er ekki til að bæta úr skák þegar gengið er einsamall með barninu sínu til altaris í fermingarathöfninni. Einstætt foreldri sem misst hefur maka í dauðann hefur ekki rétt á að sækja slíkt framlag því meðlagið með barninu sem missti pabba eða mömmu heitir barnalífeyrir. Tannréttingar kosta 700.000-800.000 kr., sem samsvarar meðlagi, nei, fyrirgefiði, barnalífeyri í 28 mánuði.
Þessi grein átti aðeins að vera stutt áminning um börnin 900 sem syrgja foreldri sitt: Þótt pabbi hafi dáið þegar skottan hans var átta ára og síðan séu liðin bráðum fjögur ár, þá saknar hún hans ekkert minna nú þegar hún er orðin tólf ára. Það er orðið svo ógnarlangt síðan hún sá hann síðast, heyrði röddina hans, fékk hjá honum faðmlag. Og nýjar spurningar vakna: Af hverju fær fólk krabbamein, verður aldrei hægt að lækna heilaæxli? Ef ég giftist þegar ég verð stór, hver á þá að ganga með mér inn í kirkjuna úr því að pabbi er dáinn? Erfiðar minningar um veikindi, sjúkrabíla, grátandi ástvini gufa ekki upp með tímanum úr barnsminninu. Mörg þurfa á faglegri aðstoð að halda, jafnvel þótt þau eigi eftirlifandi foreldri sem vinnur vel úr eigin sorg.
Ég botna þessi skrif með einlægri ósk um að nýkjörið alþingi tryggi í gegnum skólakerfið sálfræðiaðstoð við börn sem hafa misst foreldri og einnig að staðið verði við Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna á Íslandi en samkvæmt honum eiga öll börn að vera jöfn fyrir lögum. Börn sem hafa misst foreldri eiga að njóta sama réttar og börn annarra einstæðra foreldra. Til þess þurfa þingmenn að breyta lögum þannig að barnalífeyrir vegna foreldramissis verði réttilega nefndur meðlag og þar með megi sækja um framlag vegna hárra útgjalda til meðlagsskylda aðilans, ríkissjóðs.
Því næst gætum við svo kannski farið að ræða um nauðsyn þess að fræða börnin okkar um sorgina og dauðann sem kemur til okkar allra á endanum, áður en þau þurfa að horfast í augu við þann veruleika í eigin lífi, rétt eins og okkur finnst rétt að fræða þau um kynlíf og getnaðarvarnir, algebru og danska málfræði. En þetta er víst meira en nóg að sinni.
Höfundur: Vilborg Davíðsdóttir, ekkja og móðir
18. nóvember 2016.
Vilborg Davíðsdóttir (skrifaði þessa grein fyrir Kvennablaðið 2016) birti þessa grein á Facebooksíðu sinni 18. nóvember 2016 í tilefni af því að 17. nóvember er alþjóðlegur dagur helgaður sorg barna.