Beint í efni

Hvern­ig get­ur Krabba­meins­fé­lag­ið sem best stutt við starfs­fólk skóla­kerf­is­ins þegar for­eldri barns deyr?

Höfundar: Dr. Ásgeir R. Helgason og Regína Ólafsdóttir

Bakgrunnur

Samkvæmt upplýsingum frá Hagstofu Íslands verða árlega 100 börn (upp að 18. ára aldri) á Íslandi fyrir því áfalli að foreldri deyr. Um það bil helmingur þessara dauðsfalla tengjast krabbameini. Í kjölfar rannsókna á líðan barna látina foreldra [1-2] fór af stað ferli þar sem sett var af stað vinna við að þróa nýjar lagagreinar til að skilgreina betur réttindi og stöðu barna sem eru í þessum aðstæðum.

Nýjar lagagreinar tóku gildi í lok 2019 þar sem réttindi þessara barna og ábyrgð samfélagsins gagnvart þeim, eru betur skilgreind. 

Í nýju lagagreinunum er heilsugæslan skilgreind sem lykilaðili í eftirfylgni barna þegar foreldri deyr. Læknir sem skrifar dánarvottorð einstaklings sem er foreldri barns undir 18 ára, er samkvæmt lögunum skyldugur til að tilkynna þeirri heilsugæslu þar sem barnið er skráð, að foreldri barns á þjónustusvæði hennar hafi nýlega látist. Heilsugæslustöðin er þar með skyldug til að athuga hagi barnsins og veita þann stuðning sem þörf er á.

Aðkoma Krabbameinsfélagsins á þessum vettvangi er fyrst og fremst að bjóða starfsfólki heilsugæslu, skóla og tómstundastarfs uppá faglega stuðning og ráðgjöf varðandi vinnu með börnum í kjölfar andláts foreldris.

Markmið þeirrar þarfagreiningar sem hér er kynnt var að kanna hvaða stuðning starfsfólk í skólum telur sig þurfa á að halda til að geta í starfi sínu komið til móts við þarfir barna þegar foreldri deyr.

Aðferð

Ákveðið var að leggja stuttan spurningalista fyrir á Norðurlandi eystra. Skólarnir voru valdir með tilliti til þess að starfsmenn Krabbameinsfélagsins á Akureyri höfðu unnið forvinnu í rýnihópum í skólum þar sem foreldri barns hafði nýlega dáið.

Að undangengnum viðtölum við starfsfólk grunnskóla og lestur erlendra leiðbeininga á þessu sviði [https://www.kidshealth.org.nz], var ákveðið að leggja 8 spurningar (mynd 1) fyrir starfsfólk þriggja skóla til að kanna hvaða stuðning starfsfólkið taldi sig þurfa á að halda í vinnu með börnum í kjölfar andláts foreldris. Um var að ræða leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla, þar sem starfa um 120 einstaklingar. Í öllum skólunum voru nemendur sem nýlega höfðu orðið fyrir því að foreldri dó. Starfsfólk (hjúkrunarfræðingur og sálfræðingur) Krabbameinsfélagsins á Akureyri höfðu komið að þeim málum.