Aðdragandi andláts
Þegar foreldri veikist meira eru það eðlislæg viðbrögð að vilja vernda barnið fyrir merkjum um að sjúkdómurinn sé að ágerast.
Ættu börn að vera viðstödd andlát og aðdraganda þess?
Þegar foreldri veikist meira eru það eðlislæg viðbrögð að vilja vernda barnið fyrir merkjum um að sjúkdómurinn sé að ágerast. Foreldrar vilja ekki að barnið horfi upp á vissa hluti eins og uppköst, verki eða að hinn veiki sé hættur að nærast. Þau vilja ekki að barnið þurfi að upplifa að foreldrið er orðið of veikburða til að geta gefið því þá athygli sem það er vant. Hins vegar er ógerlegt að vernda barnið fyrir öllu, og þá sérstaklega þeirri staðreynd að foreldrið er þreyttara, hefur jafnvel minni þolinmæði fyrir barninu, er veiklulegra að sjá og á erfiðara með að komast um. Ef reynt er að hlífa barninu við því sem raunverulega er að eiga sér stað getur það truflað aðlögun þeirra að aðstæðunum. Það getur því verið gott að nota þau einkenni sem koma fram hjá foreldrinu til að hjálpa barninu að skilja að lífslokin nálgist.
Ung börn þurfa ef til vill ekki endilega að vera viðstödd þegar foreldrið deyr, en aftur á móti er mikilvægt fyrir þau að fá að vera heima hjá sér þar sem þau upplifa mesta öryggið. Það kann að vera freistandi að láta barnið vera hjá ættingja meðan á þessum tíma stendur en það getur hins vegar skapað önnur vandamál fyrir barnið og það situr oft í þeim. Sum börn hafa seinna meir tjáð að þeim hafi liðið eins og þau væru útilokuð frá fjölskyldunni eða að samband þeirra við foreldrið væri ekki álitið mikilvægt, að fjölskyldan hafi ákveðið að þau gætu ekki afborið eitthvað jafn hræðilegt og dauðann og því hafi þau verið send í burtu.
Ef foreldri liggur inn á sjúkrastofnun ætti að leyfa barninu að vera í eins miklum samskiptum við það og mögulegt er. Það sama á við um foreldri sem er deyjandi heima. Það er mikilvægt að barnið sé undirbúið fyrir það sem vænta má í þessum heimsóknum. Þau ættu að hafa eitthvað til að dunda sér við og það ætti ekki að ætlast til þess af þeim að þau sitji róleg við rúmið hjá foreldrinu. Flestir foreldrar njóta þess að hafa börnin sín nálæg til að spjalla um vinina og skólann. Þau njóta þess einnig að heyra börnin leika sér og hafa gaman, jafnvel þótt foreldrið geti ekki lengur tekið þátt í leiknum með barninu. Það er gott að hvetja barnið til að halda áfram í þeim tómstundum sem það hefur venjulega ánægju af. Það er ekki hægt að ætlast til að börn og unglingar sitji stöðugt við sjúkrabeð foreldri síns.
Ung börn, undir sjö ára aldri, hafa oft sérstaklega þörf fyrir blíðu og faðmlög frá veika foreldri sínu. Það er því mikilvægt ef hægt er að viðhalda þessum líkamlegu tengslum eins lengi og mögulegt er, bæði fyrir barnið og foreldrið.
Ef barnið er eldra en sjö ára er best að reyna að leita eftir vísbendingum hjá barninu um hversu mikið það hefur þörf fyrir að vera hjá deyjandi foreldri sínu. Ef foreldrið er heima er gott að huga að einhverju sem barnið og foreldrið geta gert saman á auðveldan hátt, til dæmis að spila tölvuleiki, kúra og horfa saman á sjónvarpið. Sumum börnum finnst gott að fá að lesa fyrir foreldri sitt. Stundir sem þessar geta orðið dýrmætar í minningunni seinna meir.
Unglingar gætu fundið þörf fyrir að koma að umönnun við veika foreldrið að einhverju leyti. Það gæti farið eftir einstaklingsbundnum þáttum eins og félagslegum þörfum þeirra, sambandinu við foreldrið, og álagi sem tengist skólanum. Þegar foreldri veikist alvarlega gæti unglingurinn leitað í auknum mæli eftir því að vera heima við eða farið þá leið að vera meira að heiman. Eins og eðlilegt er byrja unglingar gjarnan að aðskilja sig frá foreldrum á þessum árum og því getur reynst þeim flókið að finna jafnvægi varðandi þann tíma sem þeir verja með veika foreldrinu í samanburði við aðra þætti í lífi sínu. Unglingar geta hjálpað til varðandi heimilið og það er eðlilegt að leita til þeirra ef eitthvað óvænt kemur upp á. Unglingum finnst oft gott að finna að þeim er treyst til þess að hjálpa til á erfiðum tímum í fjölskyldunni. Það er þó mikilvægt að reyna að tryggja að unglingurinn hafi áfram tíma fyrir vini sína, geti tekið þátt í skólastarfi og hafi áfram svigrúm til að aðskilja suma þætti tilveru sinnar frá heimilinu.
Eldri börn og unglingar gætu viljað vera í kringum foreldri á dánarbeði þess eða vera viðstödd andlátið. Það ætti að styðja þau til þess en þá er gott að hitt foreldrið eða náinn ástvinur sé alltaf með í herberginu líka. Það gæti verið gott að spyrja heilbrigðisstarfsmann um hvers má vænta í þessu ferli og útskýra það vel fyrir barninu.
Ef barn lætur í ljós að það vilji ekki vera hjá foreldri sínu á dánarbeði þess, ætti að virða þá ósk.
Þegar foreldri deyr
Það getur verið gagnlegt fyrir barnið/unglinginn að fá að sjá hinn látna áður hann er fluttur í burtu. Það gefur þeim tækifæri til að kveðja og hjálpar þeim að meðtaka þá staðreynd að foreldri þeirra er dáið. Barnið/unglingurinn gæti viljað skrifa bréf, teikna mynd eða skilja eitthvað persónulegt eftir hjá látnu foreldri sínu.
Þegar kemur að andlátinu gæti barnið/unglingurinn grátið, öskrað eða jafnvel hlegið. Öll tilfinningaleg viðbrögð eru eðlileg í þessum kringumstæðum. Þau gætu líka reynt að fela sterkar tilfinningar en fundið þeim farveg með því að lemja, æpa eða biðja um að fá að vera í friði. Barnið/unglingurinn þarf að fá að vita að það er ekkert rétt eða rangt þegar kemur að sorginni og að það er leyfilegt að syrgja á sinn hátt. Börn/unglingar á öllum aldri þurfa að finna að þau njóta stuðnings frá einhverjum fullorðnum í gegnum þennan tíma. Það getur líka reynst gagnlegt að halda í daglegar venjur tengt vinum, tómstundum og skóla.
Börn: Eftir að foreldri er látið gæti barnið komist í uppnám aftur og aftur yfir því að mamma eða pabbi skuli ekki koma heim. Barnið gæti spurt sömu spurninganna aftur og aftur, eins og „Hvert fór hann?“. Það getur verið gagnlegt að bjóða barninu að fá að handfjatla eða hafa hjá sér hluti sem tilheyrðu þeim látna. Sumum börnum finnst gott að hafa hjá sér föt eða annað frá foreldrinu, jafnvel fyrsta árið eða svo, eftir andlátið.Það gæti orðið vart við erfiðleika með svefn hjá barninu og yngri börnin gætu verið óróleg og neitað að sofa ein. Þetta lagast yfirleitt á nokkra mánaða tímabili.Atburðurinn sem börnin eru að vinna úr hverju sinni endurspeglast oft í leikjum þeirra.
Flestum börnum finnst gott að skoða myndir af foreldrinu frá gleðilegum tímabilum og að hlusta á sögur af því. Enn og aftur eru hinar daglegu venjur afar mikilvægar. Það er því gott að hjálpa barninu við að komast aftur í skólann og í sínar venjubundnu athafnir, að minnsta kosti þegar athöfnum í tengslum við andlátið er lokið.
Unglingar: Viðbrögð unglinga eftir að foreldri fellur frá eru breytileg. Sumir unglingar gráta eða verða mjög reiðir en aðrir vilja verja löngum stundum einir. Sumir hafa þörf fyrir að vera mikið í kringum vini sína. Unglingum finnst oft líka gott að hafa hjá sér myndir, föt eða aðra hluti sem foreldrið átti.
Unglingum gæti liðið illa yfir riflildi sem þeir áttu við foreldrið eða liðið illa yfir því að hafa óhlýðnast foreldri sínu og því um líkt. Unglingurinn gæti því setið uppi með sektarkennd vegna hluta sem hann sagði eða vegna þess sem var ósagt. Stundum getur hjálpað unglingnum að skrifa bréf og koma þannig í orð því sem hann vildi geta sagt við látna foreldrið. Fyrir marga unglinga er gagnlegt að fá að tala við fullorðinn einstakling sem getur hlustað án þess að leggja dóm á það sem þeir hafa að segja. Stuðningshópar eða það að geta rætt við annan ungling sem hefur gengið í gegnum sömu reynslu getur líka verið mjög hjálplegt.
Það er gott að hafa í huga að sorg vegna missi foreldris í æsku vaknar oft upp síðar á lífsleiðinni við mikilvæga atburði og lífsreynslu.
Áhrif sorgar á barnið: Foreldrar hafa oft þungar áhyggjur af því að sorg þeirra muni bitna á börnunum. Þeir óttast að það muni skaða barnið að sjá foreldrið í tilfinningalegu uppnámi eftir missinn.
Börn leita eftir vísbendingum hjá foreldrum sínum um hvernig á að bregðast við heiminum og atburðum sem að móta líf þeirra. Það mun ekki skaða þau að sjá foreldri sitt í sorg svo framarlega sem þörfum þeirra fyrir öryggi er mætt. Það er ekkert rangt við það að gráta eða tjá erfiðar tilfinningar í sorginni. Ef barnið verður vitni að þessum tilfinningum hjá foreldri sínu gefur það skilaboð um að barninu er leyfilegt að tjá sínar eigin tilfinningar. Ef foreldrið eða fjölskyldumeðlimir reyna of mikið að fela tilfinningar sínar, gæti það hamlað barninu í að tjá sínar eigin tilfinningar. Skyndilegt og mikið tilfinningauppnám getur gert börnin óttaslegin en viðbrögð eins og að fella tár eða reiði eru eðlileg hjá öllum þeim sem syrgja.
Höfundur: Lóa Björk Ólafsdóttir, hjúkrunarfræðingur
Byggt á gögnum af eftirfarandi vefsíðum: