Sortuæxli og önnur húðkrabbamein

Taktu prófið!

Mikilvægt er að fara varlega í sólinni, nota ekki ljósabekki og vera vakandi fyrir nýjum fæðingarblettum eða breytingum á þeim sem eru til staðar. 1Það er nær alltaf hægt að lækna húðkrabbamein ef það greinist á snemmstigum. 

Rétta svarið er: "Rétt"

Það er langoftast hægt að lækna algengustu húðkrabbameinin, grunnfrumkrabbamein , flöguþekjukrabbamein og sortuæxli, ef þau eru greind nægilega snemma. Sortuæxlin eru þó hættulegust. Ef þau ná að vaxa niður í húðina og inn í sogæðar eða blóðæðar geta sortuæxlisfrumurnar dreift sér um líkamann og myndað meinvörp. Á því stigi er það illviðráðanlegt og oftast ólæknanlegt. Því er mikilvægt að greina það á byrjunarstigi.


2Húðkrabbamein er eitt algengasta krabbameinið á Íslandi.

Rétta svarið er: "Rétt"

Tæplega 190 greinast árlega með húðkrabbamein á Íslandi.  Húðkrabbamein önnur en sortuæxli eru um 8% allra krabbameina og sortuæxli um 3%. Af þeim látast um 14 á ári, flestir af völdum sortuæxlis. Mikil aukning varð á ákveðnu tímabili í tíðni sortuæxla hér á landi sem tengdist notkun ljósabekkja og auknari sólarlandaferðum. 


3Húðkrabbamein er eitthvað sem ungt fólk ætti ekki að hafa áhyggjur af.

Rétta svarið er: "Rangt"

 

Þó svo að tíðni sortuæxla aukist með aldrinum þá fær ungt fólk líka sjúkdóminn, sérstaklega ef það hefur sögu um að brenna í sól eða ljósabekk. 


4Ljósabekkir eru ekki jafnhættulegir og sólin.

Rétta svarið er: "Rangt"

 

Að fá á sig útfjólubláa geisla (UV-geisla) er stærsti áhættuþáttur húðkrabbameina. Þó svo að sólin sé aðaluppspretta útfjólubláu geislanna þá senda ljósabekkir einnig slíka geisla frá sér. Útfjólubláu geislarnir skaða erfðaefni í húðfrumunum sem leitt getur til húðkrabbameins. Fólk sem fær á sig mikið af útfjólubláum geislum, hvort heldur frá sólinni eða ljósabekkjum, er í aukinni áhættu að fá húðkrabbamein .


5Fólk sem er dökkt á hörund fær ekki húðkrabbamein.

Rétta svarið er: "Rangt"

 

Sólargeislar og geislar frá ljósabekkjum geta haft áhrif á húð og augu allra, óháð litarhafti og augnlit. Fólk með ljósa húð er þó mun líklegra til að fá sólarskemmda húð en fólk sem er dökkt á hörund. Fólk með dökka húð er ólíklegra til að fá sortuæxli á svæði eins og fótleggi, bak og bringu. Um helmingur sortuæxla hjá þeldökku fólki greinist á lófum og iljum en um eitt af hverju tíu hjá einstaklingum sem eru ljósir á hörund.


6Auðvelt er að þekkja húðkrabbamein, það byrjar alltaf sem dökkleitur blettur.

Rétta svarið er: "Rangt"

 

Húðkrabbamein getur myndast á margskonar hátt. Litur þeirra getur verið dökkbrúnn, rauður, gráleitur, svartur og þeir geta verið ólíkir að lögun og stærð. Grunnfrumukrabbamein og flöguþekjukrabbamein eru oftast á svæðum sem hafa fengið mikla sól, t.d. höfði, hálsi, handleggjum, en geta myndast hvar sem er á líkamanum. Sortuæxli myndast oft í fæðingablettum. Leitaðu eftir nýjum bletti, bletti sem er að breytast að einhverju leyti eða er óreglulegur að lögun, með fleiri en einn lit í sér eða sár sem grær ekki á nokkrum vikum. Kláði í blett getur einnig verið einkenni. Annað mikilvægt merki er blettur sem er ólíkur öðrum blettum á húðinni. Stundum er erfitt að átta sig á muninum á eðlilegum bletti og húðkrabbameini, þannig að mikilvægt er að leita til læknis, t.d. húðsjúkdómalæknis ef þú ert með einhver ofangreindra einkenna. Hægt er að panta tíma í sérstaka blettaskoðun hjá húðsjúkdómalæknum.


7Því lengur sem ég er í sólinni því betur venst húðin henni og líkur á húðkrabbameini minnka.

Rétta svarið er: "Rangt"

 

Því lengur sem þú ert í sólinni því meiri skaða getur þú orðið fyrir. Húð sem verður brún er í raun merki um að húðin hefur orðið fyrir skaða af völdum útfjólublárra geisla. Til langs tíma getur það valdið ótímabærri öldrun húðar með tilheyrandi hrukkum, línum og minnkuðum teygjanleika húðar ásamt öldrunarblettum og öðrum blettum sem breyst geta í húðkrabbamein .


8Útfjólubláir geislar eru eingöngu hættulegir fyrir húðkrabbamein.

Rétta svarið er: "Rangt"

 

Útfjólubláu geislarnir geta einnig aukið líkur á að fá ský á auga eða önnur augnvandamál. Sortuæxli geta einnig myndast í auga.


9Að hafa brunnið á húð fyrir 18 ára aldur eykur hættu á húðkrabbameini.

Rétta svarið er: "Rétt"

 

Húð barna er þynnri og viðkvæmari. Þeir sem hafa brunnið í sól eða ljósabekk eru í aukinni hættu að fá húðkrabbamein , sérstaklega sortuæxli. Þeir sem hafa ljósa húð, húð sem brennur auðveldlega eða hafa marga fæðingabletti eru einnig viðkvæmari.


10Því hærra sem ég geng á fjöll því minni líkur eru á að brenna.

Rétta svarið er: "Rangt"

 

Því hærra sem þú ert frá sjávarmáli því sterkari eru geislarnir og meiri líkur eru á að brenna.


11Skýin veita EKKI örugga vörn fyrir sólargeislum.

Rétta svarið er: "Rétt"

 

Umtalsverður hluti sólargeisla sleppur í gegnum skýin auk þess sem sólargeislar endurspeglast á sjó, vatni og snjó. Til dæmis getur fólk brunnið á svæðum sem eru í skugga frá sól en snúa að snjó eða vatni.


12Maður finnur það þegar maður er að brenna því þá hitnar húðin.

Rétta svarið er: "Rangt"

 

Þú finnur ekki fyrir útfjólubláu geislunum, þeir gefa ekki frá sér hita. Það eru innrauðir geislar sólarinnar sem gefa frá sér hita en þeir valda ekki bruna. 


13Brúnkukrem eru öruggari en sólböð eða ljósabekkjanotkun.

Rétta svarið er: "Rétt"

 

Ef þú sækist eftir dökkum húðlit er talið mun hættuminna að nota brúnkukrem en að stunda sólböð eða ljósabekki. 

Hafir þú einkenni sem þú telur að geti bent til húðkrabbameins þá er ráðlagt að leita til heimilislæknis eða húðsjúkdómalæknis.Var efnið hjálplegt?