Beint í efni
Styrkleikarnir Selfossi 2023

Um Styrk­leik­ana

Styrkleikar Krabbameinsfélagsins er heill sólarhringur af ævintýrum, samstöðu og samkennd.

Styrkleikarnir eru fjölskylduvænn viðburður og býður upp á einstaka upplifun fyrir alla, óháð aldri. Þeir eru öllum opnir sem vilja sýna stuðning í verki fyrir einstaklinga sem greinst hafa með krabbamein og aðstandendur þeirra. 

Styrkleikarnir byggja á liðum sem fjölskyldur, fyrirtæki, íþróttafélög, félagasamtök eða aðrir skrá sig í . Þeir snúast síðan um að hafa fulltrúa hvers liðs á hreyfingu (ganga, hlaupa) með boðhlaupskefli, sólarhringinn sem viðburðurinn stendur yfir og er um leið táknrænn fyrir að engin hvíld fæst frá krabbameini.

Styrkleikarnir eru ekki keppni heldur snúast þeir um samstöðu, samveru og samtakamátt liðanna í að styðja við, heiðra eða minnast einstaklinga sem hafa fengið krabbamein. Þeir eru alltaf skipulagðir í nærsamfélagi og undirbúinn og framkvæmdur að langmestu leyti af sjálfboðaliðum.

Styrkleikarnir eru haldnir til að sýna stuðning og safna fé sem nýtist til krabbameinsrannsókna ásamt því að veita krabbameinsgreindum ráðgjöf og þjónustu. Þjónusta Krabbameinsfélagsins er öllum að kostnaðarlausu og gerir verkefni eins og Styrkleikarnir meðal annars, félaginu kleift að halda út þjónustunni.

 Krabbameinsfélagið er í samstarfi við Global Relay for Life, samtaka í eigu ameríska krabbameinsfélagsins, til þess að geta haldið viðburðinn sem á ensku heitir Relay for Life, hér á landi. Viðburðurinn hlaut íslenska nafnið Styrkleikarnir en það er orðaleikur og minnir okkur á styrkinn sem við finnum í samstöðunni, við það að ganga saman til að standa með fólki sem hefur verið snert af krabbameini.

Relay for Life fer fram árlega á yfir 5000 mismunandi stöðum í yfir 30 löndum um allan heim. Hátt í 10 milljónir taka þátt í viðburðinum á hverju ári og fer sá hópur stækkandi.