Samskipti við aðra
Að greinast með krabbamein og að vera aðstandandi getur haft áhrif á margt.
Eitt af því eru samskipti og sambönd við fjölskyldu, vini og kunningja. Yfirleitt hefur fólkið í kringum þann sem greinist með krabbamein þörf fyrir að sýna umhyggju og fá fréttir af því hvernig gengur. Stundum getur tekið á að endurtaka aftur og aftur sömu upplýsingarnar þó gott sé að finna fyrir samhug og stuðningi.
Hér eru nokkrar hugmyndir sem gætu verið gagnlegar:
• Að stofna lokaðan hóp á facebook, í skilaboðum eða tölvupósti og setja fréttir þar inn. Þá getur verið upplagt að segja frá því hvernig þér finnst best að hafa hlutina á þeim tímapunkti, t.d. að þú hafir þörf fyrir næði, þörf fyrir að hitta eða heyra í fólki eða hvaða aðstoð myndi gagnast þér best.
• Að hafa tengiliði. Aðstæður, áhugamál og persónugerð geta gert það að verkum að við þekkjum mismikið af fólki. Sumir tengjast inn í marga hópa og þá getur sérstaklega verið gott að hafa tengilið inn í hvern hóp sem miðlar upplýsingum áfram til dæmis til vinnustaðarins, saumaklúbbsins, hlaupahópsins eða kórsins.
• Hlustaðu á þínar þarfir. Leyfðu þér að slökkva á símanum eða taka þér frí frá samfélagsmiðlum þegar þú finnur þörf fyrir það. Það getur þó verið mikilvægt að láta nánasta aðstandanda vita áður.
Stundum hefur fólk ekki möguleika til að aðstoða eða sýnir ekki vilja til þess. Þetta gæti sært tilfinningar þínar eða reitt þig til reiði. Þetta gæti verið sérstaklega erfitt ef fólk sem þú hafðir vænst þess að fá stuðning frá, veitir hann ekki.
Það er gott að hafa í huga að sjaldnast er ástæðan fyrir þessu persónuleg heldur gæti verið að viðkomandi sé að glíma við, til að mynda, mikið álag í persónulegu lífi, vantreysti sér og óttist að segja ekki réttu hlutina. Það gæti líka verið að gömul áföll eða reynsla valdi því að viðkomandi forðist það sem vekur upp erfiðar tilfinningar. Ef um er að ræða samband við manneskju sem skiptir þig máli er líklegast best að segja viðkomandi hvernig þér líður og hvað þú ert að upplifa í ykkar samskiptum.