Óttinn við að endurgreinast
Ótti og kvíði eru eðlilegur hluti af því að hafa greinst með krabbamein og hjá Krabbameinsfélaginu býðst aðstoð við að takast á við það.
Áhyggjur af því að greinast aftur með krabbamein eru oft mestar fyrsta árið eftir að krabbameinsmeðferð lýkur en yfirleitt dregur úr óttanum eftir því sem tíminn líður.
Hugmyndir sem gætu hjálpað:
- Þekktu þínar tilfinningar. Margir vilja reyna að bæla niður tilfinningar eins og ótta og kvíða. það getur hinsvegar orðið til þess að magna upp þessa líðan. Það hjálpar oft að tala við traustan við, fjölskyldumeðlim eða fagaðila.
- Það getur hjálpað þér að átta þig á að hverju óttinn beinist helst. Til að mynda gæti það verið óttinn við að þurfa að fara aftur í gegnum krabbameinsmeðferð, óttinn við að missa stjórn á lífi þínu eða óttinn við að deyja. Mörgum finnst hjálplegt að skrifa niður hugsanir sínar og tilfinningar.
- Vertu viðbúin/n því að óttinn gæti aukist tímabundið á ákveðnum tímum. Til dæmis þegar kemur að eftirliti eða þegar einhver annar greinist með krabbamein. Það gæti hjálpað að eiga samtal við lækninn um þennan ótta og spyrja hvaða merkjum eða einkennum þú ættir helst að vera vakandi fyrir.
- Ekki bera áhyggjur þínar í hljóði. Það getur verið gott að tala við aðra sem hafa verið í svipuðum sporum, til dæmis með því að taka þátt í stuðningshópum. Að deila hugsunum sínum og tilfinningum með þeim sem skilja hvað þú ert að fara í gegnum getur dregið úr einmanakennd og gefið þér styrk.
- Leitastu við að draga úr streitu. Það er hjálplegt að leita leiða til að draga úr spennu og kvíða. Það er gott að minna sig á hvað hjálpar yfirleitt betur en einnig gæti verið gott að prófa nýjar leiðir.
- Að leitast við að lifa heilsusamlegu lífi getur hjálpað við að draga úr óttanum um að greinast aftur.