Beint í efni
Davíð Ólafsson

Mottu­mars rak Dav­íð til lækn­is

„Ég vissi að það var eitthvað að. Ég var búinn að lesa mér það mikið til að ég gerði mér grein fyrir að það væri sennilega æxli. En svo er þetta svo hart. Maður liggur þarna á bekknum ber að neðan. Læknirinn þræðir upp járnstöng með linsu og myndavél. Kemur svo til baka og segir: „Horfðu nú á skjáinn Davíð minn. Þetta er illkynja krabbamein.“

Þannig hefst sjúkrasaga Davíðs Ólafssonar, óperusöngvara og fasteignasala, sem greindist 47 ára gamall með ristilkrabbamein. Hann náði tímabundnum bata en í janúar 2019, tveimur árum síðar, tók krabbameinið sig upp aftur og við fylgjumst með því ferli þegar Davíð fer í aðgerð þar sem ristillinn er fjarlægður alveg og hann fær varnalegt stóma.

Fyrir greiningu hafði Davíð tekið eftir einkennum sem hann hélt fyrst að gætu tengst mat sem hann hafði borðað. „Ég hafði hlustað á auglýsingar Mottumars nokkrum árum áður þar sem Þorsteinn Guðmundsson, leikari og vinur minn, las slagorðin. Ég fékk hann á öxlina með alla frasana: „Ekki segja pass við þinn rass“ og svo framvegis. Og þetta sat í mér. Þegar einkennin héldu áfram heyrði ég stöðugt í honum. Ég átti að láta athuga mig og ekki vera feiminn við það. Og það er ástæðan fyrir því að ég fór og lét skoða mig.“

„Ég bjóst alls ekki við þessu. Ég hélt að þetta væri eitthvað góðkynja. En það góða er að þegar þetta gerist tekur heilbrigðiskerfið við manni og ofsalega skýrir ferlar fara í gang. Annað, sem snýr að fjármálum, vinnu, sjúkrasamlagi, er önnur saga, því það tekur enginn við þér og leiðir þig í gegnum þann frumskóg. Þar skiptir mestu máli að tala við félagsráðgjafa.“

Davíð sagði í upphafi engum frá nema eiginkonu sinni og við tók óvissutími sem hann vildi nýta til að afla sér upplýsinga um stöðu sína og sjúkdóminn: „Mér fannst mjög mikilvægt að hafa allar staðreyndir á hreinu og var hálfnaður með geislameðferð þegar ég sagði fjölskyldunni frá þessu. Þetta var orðið þriðja stigs og komið í eitla og eftir á að hyggja er ég feginn að ég gerði þetta svona þrátt fyrir að vera ráðlagt gegn því. Mjög feginn. Því ég var svo tilbúinn.“

Rakti sig á milli klósetta

Hluti ristilsins var síðan fjarlægður og Davíð fékk tímabundið stóma á meðan ristillinn var að jafna sig. Við tók langt bataferli. „Það er ekkert vandamál að berjast við krabbamein, en það er miklu erfiðara að eiga við afleiðingarnar. Í hálft ár fór ég á salernið 35 sinnum á sólarhring, dag og nótt. En svo lærði ég að ef ég var á fastandi maga þá gat ég farið niður í bæ, unnið pínulítið og gert eitthvað smávegis. Og ég náði að rekja mig heim úr bænum í Mosfellsbæinn með því að þekkja öll salerni á leiðinni, í Ártúnsbrekkunni, Húsasmiðjunni og Bauhaus. En þetta var svolítið töff því þú veist aldrei hvenær líkaminn þarf að losa. Og svo gerast slys. Svo þetta er svolítið niðurlægjandi vandamál. En maður leysir það með því að vera alltaf með auka föt með sér.“

Erfitt að þiggja hjálp

Vinir og kunningjar veittu mikinn stuðning, sérstaklega á þeim tíma þegar Davíð var tekjulaus. En honum fannst erfitt að taka við hjálp: „Ég hef alltaf unnið sjálfstætt og þegar maður er kominn á þann stað að maður getur ekki bjargað sér er það mjög erfitt. Ég held að það sé sérstaklega sterkt í karlmönnum að vilja sjá fyrir öllu og hafa fólkið sitt ánægt,“ segir hann.

„Ég ákvað að gera eitt sem var rosalega erfitt. Ég ákvað að afþakka aldrei hjálp. Þegar ég fór aftur að vinna tók ég þetta saman og gaf það áfram í verkefni tengdum krabbameinsrannsóknum eða öðru slíku. Ég sagði engum frá því, en fannst gott að gefa gjöfina áfram.“

Álag á fjölskylduna

Davíð reyndi eftir megni að hlífa fjölskyldunni í veikindaferlinu og hjónin reyndu að lifa eins eðlilegu lífi og hægt var: „Á sama tíma fattaði ég ekki að það snerist í raun allt heimilið um mig. Ég spurði konuna mína til dæmis aldrei; hvernig líður þér? Það gleymdist alveg. Það sem mér fannst líka vont í þessu öllu var að ég gat ekki svæft börnin á kvöldin. Ég gat ekki vaknað á morgnana til að koma þeim í skólann. Ég lá bara í rúminu. Og í dag finnst mér líka erfitt að liggja uppí rúmi þegar þarf að koma liðinu niður. Ég stýri því nefnilega ekki hvenær ég er úr leik. Stundum er ég kominn í náttbuxurnar klukkan fjögur og geri ekki meira þann daginn. Það sem ég er að glíma við er bara svo miklu stærra en ég fatta.“

Fimmtugur með Barbierass

Í janúar 2019 kom í ljós að meinið var að taka sig upp aftur og fjarlægja þarf ristilinn. Davíð óskaði eftir því við lækninn að fá að fresta aðgerðinni um tvær vikur til að geta haldið upp á fimmtugsafmæli sitt og farið í hjónaferð til Berlínar: „Þetta var samþykkt og daginn sem ég flýg heim frá Berlín hreinsa ég út og fer sennilega á salernið í síðasta sinn á ævinni. Eftir aðgerðina verð ég nefnilega kominn með svona „Barbie Butt.“ Það er saumað fyrir botninn og maður fær svona Barbiedúkku rass,“ segir Davíð og hlær.

„Þegar ég fæ varanlegan stóma get ég fengið líf mitt aftur til baka. Þá þarf ég ekkert að hugsa um þetta og get farið að hlaupa aftur, hjóla og labba. Það eru hlutir sem ég get ekki í dag.“

Ristillinn fjarlægður

Krabbameinsfélagið fylgdist með Davíð í því ferli sem tók við þegar ristillinn var fjarlægður og hann fékk varanlegt stóma. Tveimur vikum síðar hittum við hann heima og nú tekur við tímabil þar sem hann þarf að ná upp þreki og læra á stómað: „Það eru bara átta dagar síðan ég var í göngugrind og ótrúlegt hvað líkaminn er fljótur að ná sér. En þótt ég geti alltaf meira og meira með hverjum deginum mun það taka hálft ár að komast alveg í gang aftur.

Miðað við síðustu tvö ár er þetta bara nýtt líf. Ég þarf ekki að fasta, get borðað morgunmat, hádegismat og kvöldmat og verið með fólki. Og nú get ég verið í útivist með börnunum. Þetta mun gjörbreyta lífinu.“

Léttir fyrir fjölskylduna

Faðir Davíðs, Ólafur Sigurðsson, finnur fyrir miklum létti nú þegar aðgerðin er yfirstaðin: „Sem faðir er yndislegt að sjá hann þetta hressan eftir það sem á undan er gengið. Það hefur á vissan hátt verið erfitt fyrir okkur foreldrana að fylgjast með honum í þessari stöðu, en þetta hefur allt blessast.“

Davíð stefnir á hægan bata. Hann ætlar að byrja að syngja aftur í sumar og spila skvass: „Ég er einu sinni búinn að byrja alltof hratt. Það skilar manni bara hægar inn í lífið og nú ætla ég bara að lifa.“

Viðtalið var tekið árið 2018.