Gerir æfingar í 10 mínútur
Ágúst Kristján Stefánsson er fjallamaður í hjarta sínu og stundar ísklifur, klettaklifur og fjallaskíði. Ef það er á jaðrinum þá er hann þar. Hann segir þessa nýju útgáfu af sér ekki hafa orðið almennilega til fyrr en hann veiktist og náði heilsu á ný. Þá hafi lífið tekið við.
Ágúst greindist með sáraristilbólgur sem leiddu til krabbameins. Hann þurfti að gangast undir stóra aðgerð þar sem m.a. ristillinn var fjarlægður og hann fékk stóma. Hann segir verðmætt að hafa hitt aðila sem hafa lent í því sama og sjá að þetta eru bara venjulegir einstaklingar sem lifa góðu lífi, og stóminn stoppar þá ekkert.
Á fundi hjá Stómasamtökunum bauðst honum að sigla með seglskipi milli Noregs og Danmerkur. Það fannst honum vera risastórt verkefni sem hann hélt að hann gæti ekki farið í, en fór samt og sannfærðist þá um að þetta yrði ekkert mál.
Hreyfing er mjög stór partur af lífi Ágústar. Hann er til að mynda nýbúinn að taka upp nýja venju, gerir æfingar í 10 mínútur um leið og hann vaknar og segir það svínvirka og svara lágmarks hreyfiþörf sinni ásamt því að koma blóðflæðinu af stað og hjartslættinum upp.