Vonin skiptir öllu máli
Guðrún Eiríksdóttir fékk strax að heyra að leghálskrabbameinið sem hún greindist með 2019 væri ólæknandi. Henni leið fyrst eins og það væri búið að gefa henni rauða spjaldið, en einn læknanna gaf henni þó von sem hún upplifði eins og rifu á hurð eða birtu í gegnum skráargat.
Guðrún Eiríksdóttir greindist fyrst með leghálskrabbamein árið 2019 og segist strax hafa fengið að heyra að það væri ólæknandi. Hún greindist síðan aftur 2021 og fór þá í aðra lyfjameðferð ásamt geislameðferð. Hún lauk meðferðunum sumarið 2022 og segist vera í ströngu eftirliti. „Sem betur fer þá hefur ekki bólað á neinu ennþá,“ segir Guðrún. „Það er alltaf ákveðin spenna sem fylgir hverri myndatöku auðvitað. Maður fær ekki að hrósa sigri fyrr en það eru liðin fimm ár og það eru komin þrjú stór ár núna.“
Viðtalsupptaka Guðrúnar
Ótrúlegir hlutir væru alltaf að gerast
Fyrst upplifði Guðrún að það væri búið að gefa henni rauða spjaldið en hún talar sérstaklega um einn lækni sem hún segir hafa vakið með henni von. Læknirinn sagði henni að samkvæmt bókinni væri krabbameinið ólæknandi, en að ótrúlegir hlutir væru alltaf að gerast. „Hann skildi eftir þarna smá rifu á hurðinni sem var búið að skella á mig. Þó það væri ekki nema bara smá birta í gegnum skráargatið.“
Eitt af því sem Guðrún gerði til að hjálpa líkamanum að takast á við krabbameinið var að breyta mataræðinu hjá sér. „Ég kynntist einni konu sem hafði gengið í gegnum nákvæmlega sama krabbamein og ég og hún var akkúrat á þessum tíma að fagna fimm árum frá því að hennar meðferð lauk.“ Guðrún ákvað að fylgja hennar fordæmi og leið vel með breytingarnar. „Maður setti sjálfan sig auðvitað svolítið mikið bara í forgang, þetta var bara vinnan manns svona fyrst um sinn,“ segir hún. „Það var bara númer eitt, tvö og þrjú hvernig ég gæti hjálpað ferlinu líka.“
Gefandi að vera til staðar fyrir aðra
Guðrún segir skipta miklu máli að hafa gott bakland í kringum sig og góðan stuðning. Henni finnst jafnframt gefandi að vera til staðar fyrir aðra í sömu sporum. „Ég hef alveg fundið hvað það gefur mér mikið að aðstoða annað fólk sem er að ganga í gegnum erfiðasta tímabilið. Það að sjá einhvern kominn svona langt í ferlinu með þetta þunga greiningu gefur fólki svo mikla von. Vonin skiptir öllu máli.“

