Beint í efni

Vönd­uð skrán­ing bjargar manns­líf­um – nýtt Evr­ópu­verk­efni um krabba­meins­skrár

Krabbameinsfélag Íslands tekur þátt í Evrópuverkefni til að bæta gæði krabbameinsskráa í Evrópu. 

Vönduð skráning krabbameina er grundvöllur eftirlits með þróun krabbameina og forsenda þess að við getum áætlað fjölda krabbameinstilvika í framtíðinni. Hún er einnig mikilvæg undirstaða krabbameinsrannsókna. Krabbameinsfélag Íslands rekur Krabbameinsskrá fyrir hönd Embættis landlæknis. Skráin, sem var stofnuð af Krabbameinsfélaginu, er orðin rúmlega 70 ára gömul og telst fullþekjandi og af háum gæðum.  

Mun bæta gæði og auka samanburðarhæfni

 Gæði og þekjun krabbameinsskráa í Evrópu eru þó mjög breytileg og nú á haustmánuðum 2025 hrinti Evrópusambandið af stað stóru Joint Action verkefni sem ber heitið CancerWatch: improving cancer data quality and timeliness to strengthen cancer control. Verkefnið er til þriggja ára og er leitt af lýðheilsustofnun Noregs. Það nær til 92 stofnana í 29 löndum og er ætlað að umbreyta því hvernig Evrópa safnar, samræmir og notar gögn um krabbamein. Sérstaklega er verkefninu ætlað að bæta gæði, samanburðarhæfni og tímanlega birtingu gagna úr lýðgrunduðum krabbameinsskrám í Evrópu.  

„CancerWatch mun hjálpa til við að tryggja að stefnur og rannsóknir byggi á bestu mögulegu upplýsingum hverju sinni, sem að lokum bjargar mannslífum og eykur lífsgæði þeirra sem fengið hafa krabbamein,“ sagði Giske Ursin, verkefnastjóri hjá lýðheilsustofnun Noregs um verkefnið. 

Nýtum okkar reynslu og lærum af öðrum

 Mikið alþjóðlegt samstarf fer þegar fram í tengslum við Krabbameinsskrá, sérstaklega á vettvangi samtaka norrænu krabbameinsskránna, ANCR. Samtökin halda meðal annars úti samnorrænum gagnagrunni, NORDCAN, sem sýnir tölfræði fyrir krabbamein á Noðurlöndunum yfir meira en 70 ára tímabil. Það er ánægjulegt að efla erlent samstarf enn frekar með þátttöku í CancerWatch verkefninu, en Krabbameinsfélag Íslands ásamt Embætti landlæknis tekur þátt fyrir hönd Íslands. Vonir standa til að reynsla okkar Íslendinga nýtist verkefninu, en jafnframt að við getum tekið upp nýjungar þróaðar af öðrum.