Verum bleik - fyrir okkur öll
Í dag, föstudaginn 29. september, hefst árvekni- og fjáröflunarátak Krabbameinsfélags Íslands, Bleika slaufan. Í ár beinir Krabbameinsfélagið athyglinni að mikilvægi samstöðunnar og bleika litarins sem tákns um hana.
Krabbamein kvenna snertir okkur öll einhvern tímann á lífsleiðinni og við getum öll lagt okkar af mörkum í baráttunni. Hjarta Bleiku slaufunnar í ár er slagorðið Verum bleik – fyrir okkur öll. Með því að klæða samfélagið í bleikan búning í október sýnum við samstöðu í verki með málstaðnum. Þessi sýnilega samstaða flytur fjöll og getur breytt öllu fyrir þau sem glíma við krabbamein og aðstandendur þeirra.
Hönnun slaufunnar
Hönnuðir slaufunnar í ár eru gullsmíðameistararnir Lovísa Halldórsdóttir Olesen (by lovisa) og Unnur Eir Björnsdóttir (EIR eftir Unni Eir). Hönnun slaufunnar er innblásin af samstöðu og minnir okkur á að þótt við séum öll ólík þá stöndum við saman þegar erfiðleikar steðja að. Steinarnir í slaufunni eru ólíkir að forminu til og tákna þannig margbreytileika okkar og heild þeirra táknar þéttan stuðning samfélagsins. Sterkur bleikur litur einkennir slaufuna í ár, en hann minnir á samstöðuna sem er fólgin í því þegar samfélagið skrýðist bleikum búning til að styðja við baráttuna gegn krabbameinum hjá konum.
Bleika slaufan 2023 kostar 3.500 krónur og verður í sölu frá 29. september til 23. október í verslun og vefverslun Krabbameinsfélagsins , í Mebu skartgripaverslun í Kringlunni og Smáralind, í verslun by lovisa að Vinastræti 16 í Garðabæ og hjá hátt í 400 söluaðilum um land allt.
Bleiki dagurinn 20. október
Bleiki dagurinn er hápunktur Bleiku slaufunnar og hefur notið sívaxandi vinsælda undanfarin ár. Á Bleika deginum í ár hvetjum við landsmenn til að vera bleik fyrir okkur öll og stefnum auðvitað að því að Bleiki dagurinn í ár verði sá allra bleikasti hingað til, í takt við átakið. Bleiki dagurinn verður haldinn föstudaginn 20. október og við hlökkum til að lýsa skammdegið upp með bleikum ljóma svo allar konur sem greinst hafa með krabbamein finni samstöðuna í samfélaginu.
Ómetanlegur stuðningur
Krabbameinsfélagið leggur sitt af mörkum með öflugu forvarnar- og fræðslustarfi, þýðingarmiklu framlagi til krabbameinsrannsókna, hagsmunagæslu og endurgjaldslausum stuðningi og ráðgjöf til krabbameinsgreindra og aðstandenda þeirra. Fjárhagslegur stuðningur einstaklinga og fyrirtækja við átak á borð við Bleiku slaufuna er því ómetanlegt framlag í baráttunni við krabbamein og undirstaða þess að félagið geti áfram sinnt þessum mikilvægu verkefnum. Krabbameinsfélagið þakkar Velunnurum félagsins og öllum þeim sem kaupa og bera Bleiku slaufuna um land allt af alhug fyrir stuðninginn.
Verum bleik – fyrir okkur öll
Krabbameinsfélaginu er ekkert óviðkomandi þegar kemur að krabbameinum. Félagið vinnur á fjölbreyttan hátt að því að fækka þeim sem fá krabbamein, fjölga þeim sem lifa og bæta lífsgæði þeirra sem greinast og aðstandenda þeirra.
Með kaupum á Bleiku slaufunni eða öðrum stuðningi við átakið gerir þú félaginu kleift að:
styðja fólk með krabbamein og aðstandendur þeirra með ókeypis ráðgjöf hjúkrunarfræðinga, sálfræðinga og félagsráðgjafa.styrkja íslenskar krabbameinsrannsóknir sem snúa meðal annars að orsökum krabbameina, forvörnum, meðferð og lífsgæðum sjúklinga.sinna ýmiss konar fræðslu, forvarnarstarfi, námskeiðshaldi og fleiru sem miðar að því að draga úr líkum á krabbameinum og bæta líf fólks með krabbamein.sinna hagsmunagæslu og beita sér fyrir bættri aðstöðu fyrir fólk með krabbamein.
Kynntu þér starfsemi Krabbameinsfélagsins nánar á vefsíðu félagsins og í ársskýrslu félagsins þar sem farið er ítarlega yfir starfsemi ársins.
Takk fyrir stuðninginn. Þitt framlag er skiptir máli.