Velheppnað golfmót - Karlarnir og kúlurnar
Hið árlega golfmót Karlarnir og kúlurnar fór fram á Bakkakotsvelli í Mosfellsbæ í blíðskaparveðri.
Það er óhætt að segja að gleðin hafi ráðið ríkjum á Bakkakotsvelli þegar nokkrir vaskir menn tóku þátt í golfmótinu Karlarnir og kúlurnar enda alltaf gaman að spila í þriggja manna texas scramble. Mjótt var á munum en ekki munaði nema einu höggi á fyrsta og fjórða sæti. En allir fóru glaðir og sáttir heim með golfverðlaun sem voru í boði Vodafone, Tengi, Stefnir, Margt smátt og Krabbameinsfélagið og þökkum við styrktaraðilum kærlega fyrir stuðninginn.
Karlarnir og kúlurnar er verkefni á vegum Krabbameinsfélagsins og Krafts í samstarfi við Golfklúbb Mosfellsbæjar sem snýst um að bjóða körlum sem fengið hafa krabbamein, tækifæri til að styrkja sig og leika sér með því að æfa golfsveifluna í fallegu umhverfi, njóta samvista við golffélaga, læra eitthvað nýtt og/eða viðhalda fyrri færni.