Beint í efni
Ný spá kynnt velferðarnefnd í sept 2025

Vel­ferð­ar­nefnd fundar með Krabba­meins­fé­lag­inu

Það var ánægjulegt að taka á móti fulltrúum velferðarnefndar Alþingis í Skógarhlíðinni í morgun þar sem framtíðarhorfur í krabbameinsmálum voru til umræðu. Við hjá Krabbameinsfélaginu leggjum ríka áherslu á að vinna með stjórnvöldum til að tryggja að sú þekking sem við búum yfir nýtist þeim sem taka ákvarðanir um heilbrigðismál.

Nýlega birtum við tölur úr Krabbameinsskrá Íslands fyrir árið 2024 og nýja spá sem nær til ársins 2045. Þar er m.a. spáð 63% fjölgun nýrra krabbameinstilfella til ársins 2045, en það jafngildir því að árið 2045 munu árlega greinast um 3.500 einstaklingar í stað 2.000 nú. Þá er spáð 96% aukningu í hópi lifenda, eða þeirra sem eru á lífi eftir greiningu krabbameins hvort sem þeir eru læknaðir eða lifa með sjúkdómnum og mun sá hópur telja um 38 þúsund manns árið 2045.

Skýrt að þingmenn láta sig málið varða

Það er afar brýnt að þau stjórnvöld sem fara með ákvarðanatöku um heilbrigðismál  geri það út frá nýjustu og bestu upplýsingum hverju sinni. Við hjá Krabbameinsfélaginu höfum því haft frumkvæði að því  að koma okkar þekkingu á framfæri og lagt okkar af mörkum til að tryggja gott samstarf við ráðherra og þingið allt.

Fulltrúar velferðarnefndar þáðu heimboð í Skógarhlíðina og funduðu þar með Höllu Þorvaldsdóttur, framkvæmdastjóra félagsins, og Sigríði Gunnarsdóttur, forstöðumanni Rannsóknaseturs-Krabbameinsskrár . Að sögn Höllu er ekki sjálfgefið að njóta óskiptrar athygli önnum kafinna þingmanna og er fundurinn því ekki síst til marks um það hvað málaflokkurinn er þýðingarmikill fyrir okkur öll. „Það var alveg frábært að taka á móti þeim og gagnlegar umræður sem fóru fram á fundinum. Við erum þakklát fyrir þetta tækifæri til að miðla af okkar reynslu og vekja athygli á þeirri brýnu stöðu sem uppi er í krabbameinsmálum á Íslandi.“

Aðgerðaáætlun farsælt skref en nægir ekki ein og sér

Stutt er síðan aðgerðaáætlun í krabbameinsmálum til ársins 2030 var samþykkt með einróma samþykki allra þingmanna, þvert á flokka. Það er mikið fagnaðarerindi að hún hafi náð svo breiðri sátt, því aðgerðaáætlun hefur aldrei verið eins nauðsynleg og nú. Það er okkar trú að með samþykkt áætlunarinnar hafi þingmenn sýnt í verki að þeir vilji að þjónusta við fólk með krabbamein hér á landi sé eins góð og mögulegt er. Fundurinn í dag er ekki síður staðfesting á þessum velvilja.

Félagið vekur þó athygli á því eftir sem áður að aðgerðaáætlunin tekur hvorki á húsnæðis- né tækjamálum og er ekki full fjármögnuð. Stutt er síðan alvarlegt ástand skapaðist varðandi geislameðferð, sem nú er að hluta til sinnt erlendis vegna skorts á tækjabúnaði, fullnægjandi mönnun og húsnæði.

Spáin þarf ekki að rætast

Spá um fjölgun lifenda er fyrst og fremst góðar fréttir. Hin hliðin á peningnum er að hluti þeirra munu þurfa langvarandi krabbameinsmeðferð og viðeigandi þjónustu við langvinnum eða síðbúnum áhrifum krabbameins og krabbameinsmeðferðar.

Það væri hins vegar fagnaðarefni ef spáin um fjölgun nýrra krabbameinstilvika rættist ekki að fullu. Við vitum að mörg krabbamein hafa lífsstílstengda áhættuþætti, sem þýðir að með heilsusamlegum lífsstíl er hægt að koma í veg fyrir mein. Það gerist hins vegar ekki af sjálfu sér. Stjórnvöld búa yfir leiðum til að hafa áhrif í þá átt að bæta lýðheilsu þjóðarinnar sem getur fækkað þeim sem fá krabbamein. Með öflugum forvörnum sem miða að því að draga úr kyrrsetu, bæta mataræði, verjast sólargeislum og fleiru getum við komið í veg fyrir að spáin rætist að fullu. Einstaklingar njóta ekki bara ávinningsins af bættri heilsu, heldur samfélagið allt þar sem kostnaður í heilbrigðiskerfinu getur dregist saman. Ef við bregðumst ekki við vandanum núna er ljóst að enn frekar þarf að bæta í bjargirnar síðar.

Við þökkum fulltrúum velferðarnefndar kærlega fyrir komuna og áheyrnina og hlökkum til frekara samstarfs í þágu okkar allra.

Mynd frá vinstri: Sigurþóra Bergsdóttir, Jónína Björk Óskarsdóttir, Kristján Þórður Snæbjarnarson, Grímur Grímsson, Halla Þorvaldsdóttir, Sigurður Örn Hilmarsson, Sigríður Gunnarsdóttir og Rósa Guðbjörtsdóttir. Á myndina vantar Kolbrúnu Áslaugar Baldursdóttur.