Um 40% krabbameinstilfella væri hægt að fyrirbyggja
Alþjóðlega krabbameinsrannsóknastofnunin (IARC), í samstarfi við framkvæmdastjórn Evrópusambandsins (EC) kynnti nýverið fimmtu útgáfu European Code Against Cancer sem eru ráðleggingar til að draga úr líkum á krabbameinum.
Tilfellum krabbameina fjölgar hratt hérlendis og svo mun verða næstu árin ekki síst vegna aldurssamsetningar þjóðarinnar. Byrði einstaklinga, heilbrigðiskerfisins og samfélagsins alls vegna krabbameina fer því vaxandi og er þó mikil fyrir.
Lífsstíll hefur hins vegar líka áhrif. Rannsóknir sýna að hægt væri að koma í veg fyrir mörg þessara tilfella og í ráðleggingunum er gerð grein fyrir með hvaða hætti.

Hægt væri að koma í veg fyrir allt að fjögur af hverjum 10 tilfellum krabbameina ef fleiri fylgdu viðurkenndum ráðleggingum.
Ráðleggingar til einstaklinga og í fyrsta sinn líka til stjórnvalda
Í þessari fimmtu útgáfu ráðlegginganna er sú grundvallarbreyting að þær ná ekki bara til einstaklinga, heldur einnig til stjórnvalda.
Meðal þess helsta sem einstaklingar geta gert er að forðast tóbak og áfengi, hreyfa sig reglulega, borða heilsusamlegan mat, vernda sig gegn útfjólublárri geislun og þiggja boð í krabbameinsskimanir.
Ábyrgð samfélagsins alls á að draga úr krabbameinsáhættu verður sífellt ljósari. Í ráðleggingunum eru lagðar fram vísindalega studdar tillögur til stjórnvalda um það hvernig þau geta með sínum stefnum og aðgerðum skapað heilsusamlegra umhverfi og þannig auðveldað fólki að temja sér lífsstíl sem dregur úr krabbameinsáhættu og reyndar einnig mörgum öðrum sjúkdómum.
European Code Against Cancer (ECAC) - Leiðir til að draga úr líkum á því að fá krabbamein
Ráðleggingarnar sem felast í European Code Against Cancer (ECAC) eru þróaðar af Alþjóðlegu krabbameinsrannsóknarstofnuninni ( IARC) sem er hluti af Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni (WHO). Þær voru fyrst settar fram árið 1987 og hafa verið uppfærðar eftir því sem rannsóknum hefur undið fram enda byggja þær ávallt á nýjustu vísindalegu gögnum. Nú hafa ráðleggingarnar verið uppfærðar í fimmta sinn og var ný útgáfa þeirra kynnt 19. október á ráðstefnu Evrópskra krabbameinslækna ( ESMO) í Berlín.
Krabbameinsfélagið, ásamt fjölda annarra evrópskra krabbameinsfélaga fagnar þessum áfanga enda eru ráðleggingarnar mikilvægt framlag til krabbameinsforvarna.
