Þarf að bregðast við aukningu krabbameinstilfella
Sigríður Gunnarsdóttir er forstöðumaður Rannsóknarseturs-Krabbameinskrár hjá Krabbameinsfélaginu en fyrr á þessu ári gaf setrið út spá um þróun á greiningu krabbameina hjá þjóðinni til ársins 2040. Hvað þýðir þessi spá og við hverju megum við búast?
,,Þessar niðurstöður benda fyrir það fyrsta til þess að við getum átt von á mjög mikilli fjölgun nýrra krabbameinstilfella á næstu 16 árum og í raun er sú aukning þegar farin að sjást og bætir jafnt og þétt í. Þessi fjölgun skýrist fyrst og fremst af hækkandi meðalaldri þjóðarinnar enda algengara að krabbamein greinist hjá eldra fólki“ segir Sigríður.
Þegar rýnt er í gögnin vekur athygli hve umtalsvert meiri hlutfallsleg aukning er hér á landi miðað við hin Norðurlöndin. Sigríður segir það skýrast fyrst og fremst af því hversu fjölmennar kynslóðirnar sem fæddust á árunum eftir stríð voru á Íslandi í samanburði við nágrannalöndin.
Mikilvægi skráningar
,,Okkur hefur borið til sú gæfa að skrá öll krabbamein sem greind hafa verið á Íslandi frá árinu 1954, þegar Krabbameinsskrá Íslands var stofnuð“ útskýrir Sigríður. ,,Þetta gerir það að verkum að við höfum mikla yfirsýn yfir sjúkdóminn, getum greint breytingar sem hafa orðið og spáð fyrir um hvernig hann muni hegða sér í framtíðinni. Við gáfum út spá til ársins 2040 í vor þar sem spáð er 57% fjölgun nýrra krabbameinstilfella borið saman við árslok 2022 sem þýðir að fjölgum nýgreininga fer úr 1853 í 2903 á ári og við því þarf að bregðast“.
Spáin byggir á meðaltölum gagna frá árunum 2019-2013 yfir nýgengi, algengi og lifum Krabbameina á Íslandi. Með því að byggja á meðaltölum þessa ára er dregið úr tilviljanakenndum sveiflum sem eru algengar vegna þess hversu fáir Íslendingar eru. En hún segir ekki bara til um fjölgun nýrra krabbameinstilfella heldur einnig um fjölda þeirra sem eru á lífi eftir að hafa greinst með krabbamein.
Árangur í greiningu og meðferð
Á meðan spáð er 57% fjölgun nýrra krabbameinstilfella þá er samtímis spáð að þeim sem lifa eftir að hafa greinst með krabbamein fjölgi um 54% eða úr 17.493 í 27.348 einstaklinga. Þessi árangur segir Sigríður að sé tilkominn vegna árangurs í greiningu og meðferð krabbameina.
Kynningar nauðsynlegar
Sigríður hefur verið að kynna niðurstöður spárinnar með greinaskrifum og fyrirlestrum síðan hún kom út og segir hún fólk almennt vera slegið yfir þessum niðurstöðum.
,,Þessi aukning hefur fyrirsjáanleg áhrif á heilbrigðiskerfið, sem þýðir að það þarf að stórbæta aðstöðu, auka mannafla og meðferð, bæði tæki og lyf. Tækifæri felst líka í því að stór efla forvarnir og lýðheilsu og koma þannig í veg fyrir að þessi spá gangi eftir. Stefna Krabbameinsfélagsins er m.a. að vera leiðandi í stefnumótun og ákvarðanatöku um krabbamein. Rannsóknarsetur-Krabbameinsskrá er hluti af þeirri vinnu sem gefur mikilvægar vísbendingar um krabbamein, meðferð og árangur” segir Sigríður að lokum.
Hér má lesa grein um krabbameinsrannsóknir sem birtist í Vísi 14.október 2024
- Um þriðjungur Íslendinga getur átt von á að greinast með krabbamein einhverntíma á lífsleiðinni
- Krabbamein eru algengari hjá eldra fólki og rúmlega helmingur allra krabbameina greinist eftir 65 ára aldur
- Þrátt fyrir að um fjórðungur dánarmeina á Íslandi séu vegna krabbameina þá hafa fimm ára lífshorfur þeirra sem greinast með krabbamein meira en tvöfaldast frá því að skráning hófst fyrir 70 árum. Þetta skýrist bæði af framförum í greiningu og meðferð krabbameina.