Þakkir fyrir gott samstarf
Við kveðjum Guðlaugu Birnu Guðjónsdóttur, fyrrum framkvæmdastjóra Krabbameinsfélags höfuðborgarsvæðisins, með virktum og þakklæti. Hún lætur nú af störfum eftir 28 ára kraftmikið framlag sitt í þágu málstaðarins.
Á Guðlaugu, eða Gullu eins og hún er kölluð, hefur verið hægt að treysta í Skógarhlíðinni í áratugi. Hún hefur verið vakin og sofin yfir flestu því sem snýr að krabbameinum, vaktað fréttir og umræðu og er líka ein þeirra sem hefur verið reiðubúin að stökkva til og aðstoða þegar þörf er á. Margt samstarfsfólk hjá Krabbameinsfélaginu og aðildarfélögum þess, auk heilbrigðisstarfsfólks, hefur átt hauk í horni í Gullu. Hún er góð fyrirmynd, hefur áhuga á fólki og lætur sig það varða, ræktar tengslanetið og hefur tamið sér heilbrigðan lífsstíl. Áhrifa hennar mun örugglega gæta lengi áfram í starfi Krabbameinsfélags höfuðborgarsvæðisins.
Í kveðjuboði til heiðurs Gullu sem var haldið í síðustu viku færðum við hjá Krabbameinsfélaginu henni þakklætisvott á þessum merku tímamótum.
Við þökkum henni hjartanlega fyrir samstarfið undanfarin ár og óskum henni velfarnaðar í öllu því sem tekur við.