Það koma að sjálfsögðu djúpir dalir
Guðrún Kristín Svavarsdóttir greindist með ólæknandi krabbamein árið 2017. Hún segir að auðvitað sé hún ekki alltaf uppi í bleiku skýi, það komi að sjálfsögðu djúpir dalir. Þeim fylgi erfiðar spurningar – nær hún næstu jólum? Það sé mikilvægt að gefa þeim tilfinningum smá svigrúm, en jafnframt að nota krafta sína og styrk til að spyrna í og koma sér aftur upp.
Guðrún Kristín greindist fyrst með krabbamein í desember 2013 eftir reglubundna skimun. Meðferðir til að vinna bug á meininu báru árangur í fyrstu, en hún endurgreindist síðan árið 2017. „Ég er með krónískt krabbamein í dag og er í meðferð við því,“ segir Guðrún Kristín. Hún hefur fengið 140 lyfjagjafir í gegnum lyfjabrunninn sem hún kallar viskubrunninn sinn, en meðferðin hennar breyttist nýlega til hins betra. „Nú fæ ég eina meðalstóra sprautu í lærið á þriggja vikna fresti og það er mikið frelsi.“
Viðtalsupptaka Guðrúnar Kristínar
Í óvissunni kemur styrkurinn í ljós
Hún mætir því af æðruleysi að lifa með krabbameini og segir stöðuna vera allt aðra í dag heldur en á árum áður. „Þetta er ekki þessi dauðadómur eins og var fyrir nokkrum árum síðan.“ Guðrún Kristín segir þó eðlilegt að upplifa líka djúpa dali og mikilvægt að gefa þeim tilfinningum smá svigrúm. „Auðvitað koma alltaf djúpir dalir hjá öllum, maður er ekkert alltaf uppi á bleiku skýi.“ Þá vakni erfiðar spurningar um hvort hún nái til dæmis næstu jólum. „En þá þarf maður að nota krafta sína og styrk til að spyrna í og koma sér aftur upp,“ segir Guðrún Kristín. „Maður þarf að læra að lifa í óvissunni, en þá kemur náttúrulega styrkur manns í ljós.“
Krabbameinsfélagið eins og eldra systkini
Hreyfing er mikilvæg fyrir Guðrúnu Kristínu, sem segir hana bæta bæði líkamlega og andlega líðan. Stuðningurinn frá Krabbameinsfélagi Íslands sé síðan eins og að eiga eldra systkini sem hugsi um hag hennar og tryggi framþróun. „Mér finnst Krabbameinsfélag Íslands vera stóra systkinið í þessu ferli hjá mér,“ segir Guðrún Kristín. „Þau hugsa um minn hag, bæði um réttindi mín og að sinna rannsóknum.“ Bleika slaufan hefur síðan sérstaka þýðingu fyrir hana. „Hún sýnir samstöðu og gefur mér von og styrk.“ Það sé hvetjandi að sjá aðra bera bleiku slaufuna. „Það er mjög gefandi og styrkjandi fyrir okkur sem erum í þessari baráttu.“

