Beint í efni

Sum­ar­happ­drætti Krabba­meins­fé­lags­ins

Sendir hafa verið út miðar í Sumarhappdrætti Krabbameinsfélagsins. Að þessu sinni fá karlar heimsenda miða. Vinningar eru 339 talsins að verðmæti um 67,5 milljónir króna.

  • Aðalvinningurinn er Mazda MX-30 rafbíll frá Brimborg, að verðmæti um 5,5 milljónir króna.
  • Þrír vinningar eru greiðsla upp í bifreið eða íbúð að verðmæti ein milljón króna.
  • Tuttugu og fimm vinningar eru Trek rafmagnshjól Allant+7 frá Erninum, hvert að verðmæti um 600 þúsund krónur.
  • Þrjátíu vinningar eru úttektir hjá Fjallakofanum, hver að verðmæti 100.000 krónur.
  • Vinningar í formi úttekta hjá ferðaskrifstofu eða verslun, hver að verðmæti 200 þúsund krónur, eru 130 talsins.
  • Einnig eru 150 vinningar í formi úttekta hjá ferðaskrifstofu eða verslun, hver að verðmæti 100 þúsund krónur.

Vinningarnir eru skattfrjálsir. Dregið verður 17. júní.

Allt frá árinu 1955 hefur Krabbameinsfélagið staðið fyrir happdrætti sem alltaf hefur fengið góðar viðtökur. Stuðningur almennings og fyrirtækja í landinu gerir allt starf Krabbameinsfélgasins mögulegt, fræðslu og forvarnir, ráðgjöf og stuðning við sjúklinga og aðstandendur og vísindastarf.

Krabbameinsfélag höfuð­borgar­­svæðisins hefur umsjón með framkvæmd og rekstri happdrættisins og nýtir tekjur af því fyrst og fremst til fræðslu- og forvarnastarfs. Ef allir leggjast á eitt er hægt að koma í veg fyrir 4 af hverjum 10 krabbameinum þar sem áhættuþættir þeirra eru þekktir.

Ár hvert greinast að meðaltali um 1.850 manns með krabbamein hér á landi. Lífslíkur krabba­meins­sjúklinga hafa aukist mjög mikið og er það þakkað forvörnum, betri skilningi á orsökum krabba­meins, greiningu á fyrri stigum og markvissari meðferð. Nú geta um 70% þeirra sem greinast með krabbamein vænst þess að lifa í fimm ár eða lengur en fyrir hálfri öld var hlutfallið um 40%. Sem dæmi má nefna að nú eru um 17.500 einstaklingar á lífi sem hafa fengið krabbamein. Þriðji hver Íslendingur fær krabbamein einhvern tíma á lífsleiðinni. Um fjórðung dauðsfalla hér á landi má rekja til krabbameins.

Krabbameinsfélagið hvetur stuðningsmenn sína til að bregðast vel við og greiða heimsenda miða (valkrafa í heimabanka). Greiddur heimsendur miði er með tvöfaldar vinningslíkur (tvö miðanúmer). Miðar eru einnig til sölu í vefverslun Krabbameinsfélagsins og á skrifstofu félagins að Skógarhlíð 8. Upplýsingar eru gefnar í síma 540 1928. Einnig má hafa samband ef óskað er eftir að borga með greiðslukorti. Krabbameinsfélagið hefur í marga áratugi haft það fyrir venju að hringja í vinningshafa heimsendra miða og tilkynna þeim um vinninga.

Happdrætti vor 2024