Beint í efni
Aðgerðaráætlun

Ára­löng bar­átta skilar ár­angri

Stór áfangi náðist í gær, þegar samráðshópur um krabbameinsmál skilaði heilbrigðisráðherra tillögum að aðgerðum í málaflokknum til næstu fimm ára.

Krabbameinsfélagið hefur á annan áratug lagt ríka áherslu á að komið verði upp virkri krabbameinsáætlun hér á landi og hvatt heilbrigðisráðherra og þingmenn til að vinna að því. Gríðarstórar áskoranir tendar krabbameinum blasa við samfélaginu á næstunni, með allt að 57% fjölgun nýrra krabbameinstilvika og 52% fjölgunar lifenda, til ársins 2040. Nú stefnir í að þetta baráttumál sé að verða að veruleika með tímasettum og fjármögnuðum aðgerðum.

Saga íslenskrar krabbameinsáætlunar nær að minnsta kosti aftur til ársins 2011 þegar Guðbjartur Hannesson heilbrigðisráðherra hét því á 60 ára afmæli Krabbameinsfélagsins að komið yrði upp íslenskri krabbameinsáætlun. Tillögum að henni var skilað árið 2017, sem Svandís Svavarsdóttir, heilbrigðisráðherra samþykkti sem íslenska krabbameinsáætlun árið 2019 en án þess að sérstakt fjármagn fylgdi. Í aðdraganda aðalfundar Krabbameinsfélagsins árið 2022 hélt félagið málþing um krabbameinsáætlun þar sem farið var yfir markmið og gagnsemi krabbameinsáætlana, stöðuna hér á landi og fleira og á aðalfundi félagsins árið 2023 var skorað á heilbrigðisráðherra að koma upp virkri, tímasettri og fjármagnaðri krabbameinsáætlun. Það var því mikið fagnaðarefni þegar heilbrigðisráðherra skipaði samráðshóp, til að móta nýja aðgerðaáætlun í krabbameinsmálum í byrjun árs og afar ánægjulegt að í hópnum áttu sæti fulltrúar annars vegar frá Krabbameinsfélagi Íslands og hins vegar frá einu aðildarfélaga Krabbameinsfélagsins, Krafti. Samráðshópurinn sem starfaði undir forystu Svanheiðar Lóu Rafnsdóttur brjóstaskurðlæknis með aðstoð frá Selmu Margréti Reynisdóttur, sérfræðingi í heilbrigðisráðuneytinu var fjölmennur og skipaður mjög breiðum hópi frá mörgum stofnunum. Allir lögðu mikið á sig til að ljúka verkinu á þeim skamma tíma sem gefinn var til verkefnisins, þannig að sem mestur árangur yrði af. Metnaðurinn og viljinn til að ná enn meiri árangri tengdum krabbameinum skein alls staðar í gegn. 

Félagið bindur miklar vonir við aðgerðaáætlunina sem tekur á flestum þeirra mála sem Krabbameinsfélagið hefur sett á oddinn í nýrri stefnumótun. Þar má nefna aukna áherslu á forvarnir í samfélaginu og lýðheilsumál, gæðastýrða krabbameinsþjónustu og samfelld, skýrari ferli fyrir þá sem greinast með krabbamein.

Krabbameinsfélagið fagnar framtaki heilbrigðisráðherra og hlakkar til að fylgjast með umræðum um það á Alþingi í haust. Félagið þakkar fyrir samstarfið og hlakkar til að leggja málinu áfram lið og fylgjast með framgangi þess, enda markar það straumhvörf fram á veginn. Ekki veitir af því lífið liggur við.