Stolt af samfélaginu á Styrkleikum VMA
Verkmenntaskólinn á Akureyri og nemendafélagið Þórduna stóðu fyrir vel heppnuðum Styrkleikum þann 14. október síðastliðinn. Einstök stemning myndaðist þegar nemendur og kennarar tóku höndum saman og héldu boðhlaupskefli á hreyfingu í hálfan sólarhring.
Styrkleikarnir byggja á samstöðu, samveru og samtakamætti nemenda og starfsfólks sem vilja styðja við, heiðra eða minnast einstaklinga sem hafa fengið krabbamein. Þeir snúast um að nærsamfélög taki höndum saman og hafa verið haldnir í ýmsum útfærslum, en aldrei áður í framhaldsskóla. Guðmar Gísli Þrastarson, ritari Þórdunu, og Katrín Pálmadóttir, enskukennari við VMA og stjórnarmeðlimur KAON, ræddu við okkur um viðburðinn.
„Ég held að þetta hafi gengið mjög vel miðað við að þetta sé fyrsta skiptið og fólk var mjög jákvætt fyrir þessu,“ segir Guðmar. „Þarna erum við að skapa fordæmi, byrja á einhverju sem aðrir geta tileinkað sér.“ Katrín tekur undir með honum og segir uppbrot á hefðbundnu skólastarfi mikilvægt. „Það vantar oft fleiri daga inn í skóladagatalið þar sem kennarar fara út úr kennslustofunni og gera meira með nemendum. Maður kynnist hópnum á allt annan hátt.“




Margar leiðir til útfærslu og sniðið að þörfum skólans
Hugmyndin að verkefninu kviknaði hjá KAON, einu aðildarfélaga Krabbameinsfélagsins, en Katrín situr í stjórn félagsins. Hún leitaði í kjölfarið til stjórnenda VMA og fékk svo Sólveigu Birnu H. Elísabetardóttur, viðburðastjóra VMA, til liðs við sig. „Við vorum dálítið að renna blint í sjóinn með þetta og við erum stór skóli með fjölbreytta starfsemi,“ segir Katrín. „Við hefðum kannski þurft lengri undirbúning og pínu meiri fyrirvara fyrir hópinn þannig að fleiri væru búnir að taka daginn frá. En það kom mér á óvart hvað þetta gekk allt saman ótrúlega vel og maður fann eftir daginn að það er hægt að útfæra þetta á svo margan hátt og sníða að þörfum skólans.“
Að sögn Guðmars var aðkoma nemendafélagsins fyrst og fremst að auglýsa viðburðinn og skapa stemningu fyrir þátttöku. „Sólveig kom með þetta inn á fund til okkar og við tókum auðvitað bara vel í þetta. Það verður enginn viðburður nema hann sé auglýstur og fólk viti af honum, þannig að við sáum um alla skipulagningu hvað það varðaði.“ Auk þess að hengja upp veggspjöld nýtti nemendafélagið samfélagsmiðla til að auglýsa. „Við komum sterk inn á Tik-Tok til dæmis og instagram, þar fá nemendur þessar upplýsingar helst.“
Dagskráin hófst með setningu skólameistara klukkan hálf níu um morguninn og stóð fram að ljósastundinni um kvöldið. Í frímínútum var haldið bekkpressumót milli kennara og nemenda og ýmislegt fleira var í boði yfir daginn. „Bingó seinni partinn og bíómynd sem rúllaði bara, borðtennismót um kvöldið, pizzur og gos og svo lauk deginum með því að við kveiktum á kertum í ljóskerum fyrir utan,“ segir Katrín. „Ef við hefðum haft meiri fyrirvara hefðum við líka reynt að koma með einhver erindi eða fræðslu inn í lífsleiknitímana, það hefði verið sterkur leikur.“




Þekkja allir einhvern sem hefur greinst með krabbamein
Til þess að halda keflinu á ferð í 12 tíma samfleytt var útbúið skjal þar sem fólk gat skráð sig á vaktir. Þess fyrir utan stóð fólki til boða að fara og labba hvenær sem er. „Maður var kannski nýkominn í tíma og hann byrjaði bara á því að 20 manna hópur fór út með kennaranum og labbaði í kringum skólann,“ segir Guðmar. „Einn kennari við skólann kom með alla fjölskylduna sína, konuna og þrjú börn. Mér fannst það persónulega mjög fallegt og til marks um hvað allir voru tilbúnir að taka þátt.“
„Kennarar töluðu um að þeir hefðu átt öðruvísi samtöl við nemendur þennan dag, af því að fólk var að fara úr tímum til að taka við keflinu og ganga með hópinn sinn,“ segir Katrín. „Það kom í ljós að það þekkja allir einhvern sem hefur greinst með krabbamein.“ Þau segja bæði eftirminnilegt hversu góð stemning myndaðist þennan dag. „Fólk var mjög reiðubúið að leggja hönd á plóg og gefa tímann sinn,“ segir Guðmar. „Já, það var yndislegt að sjá að það var alltaf einhver að labba með fjólublátt kefli í kringum skólann, maður varð bara pínu stoltur af samfélaginu sínu,“ segir Katrín.
Hafir þú áhuga á að halda Styrkleika hvetjum við þig til að nálgast upplýsingar og aðstoð með því að senda tölvupóst á styrkleikarnir@krabb.is.
