Smáraskóli hélt fyrstu skóla Styrkleikana
Styrkleikarnir voru fyrst haldnir á Íslandi 2022 og hafa verið haldnir á Selfossi og Egilsstöðum.
Smáraskóli er fyrsti skólinn á Íslandi til að halda skóla Styrkleika. Markmið nemenda og starfsfólks var að koma saman, sýna stuðning, heiðra og gleðja þá sem hafa verið snertir á einhvern hátt af krabbameini. Nemendur og starfsfólk skólans byrjuð daginn á að safnast saman á sal þar sem Börkur Vígþórsson, skólastjóri, sagði nokkur orð og svo sungu allir saman lagið „Ástin á sér stað“. Að því loknu sameinuðust vinabekkir skólans og gengu saman hring sem lauk með því að allir nemendur og starfsfólk mynduðu stórt hjarta sem var táknrænt fyrir þann kærleika sem þau sýndu í verki.
Krabbameinsfélagið þakkar Smáraskóla fyrir að taka af skarið og halda fyrstu skóla Styrkleikana á Íslandi. Við erum stolt af þeim og full af þakklæti til allra nemenda og starfsfólks skólans sem gerðu þetta að veruleika. Við hvetjum áhugasama skóla og hópa til að hafa samband og fá frekari upplýsingar með því að senda póst á styrkleikarnir@krabb.is.
Krabbameinsfélagið er í samstarfi við Global Relay for Life, samtök í eigu ameríska krabbameinsfélagsins, til þess að geta haldið viðburðinn Relay for Life hér á landi. Viðburðurinn hefur fengið íslenska nafnið Styrkleikarnir sem er orðaleikur sem minnir okkur á styrkinn sem við finnum í samstöðunni, við það að ganga saman til að standa með fólki sem hefur verið snert af krabbameinum. Um er að ræða alþjóðlegan viðburð sem fer árlega fram á yfir 5.000 mismunandi stöðum í yfir 30 löndum um allan heim. Hátt í 10 milljónir taka þátt í viðburðinum á hverju ári og er sá hópur sífellt að stækka.