Skiptir miklu máli að vera þátttakandi í lífinu
Sunna Kristín Hilmarsdóttir var aðeins 37 ára gömul þegar hún greindist með ólæknandi krabbamein. Hún var lengi í afneitun og var alltaf að bíða eftir að heyra að það hefði orðið einhver ruglingur á kennitölum. Krabbameini Sunnu Kristínar er haldið í skefjum með lyfjum og hún er að eigin sögn fullur þátttakandi í lífinu í dag.
„Ég var í afneitun lengi og var alltaf að bíða eftir því að læknarnir myndu segja að þeir hefðu ruglast á kennitölum,“ segir Sunna Kristín. „Mér fannst mjög óraunverulegt að vera þetta ung og vera komin með sjúkdóm sem ekki er búið að finna lækningu við.“ Sunna Kristín greindist með mergæxli fyrir fjórum árum síðan, þá 37 ára gömul. Krabbameininu er haldið niðri með lyfjum og hún telst án sjúkdómsummerkja í dag. „Ég tek krabbameinslyf á hverjum degi í þrjár vikur og svo tek ég viku í pásu. Ég er krabbameinslaus í dag og búin að vera krabbameinslaus í örugglega tvö ár.“
Það skiptir Sunnu Kristínu mjög miklu máli að halda áfram að takast á við krefjandi verkefni. „Að geta verið þátttakandi í lífinu,“ segir hún. „Að geta verið í vinnu, farið að hitta fólk.“ Hún segir það að detta út af vinnumarkaði í lengri tíma án þess að velja það hafa vakið hana til umhugsunar. „Maður verður veikur og getur ekki unnið og þá fattar maður að það er eitthvað sem skiptir máli.“
Viðtalsupptaka Sunnu Kristínar
Þessi yfirþyrmandi tilfinning að maður standi andspænis dauðanum
Sunna Kristín á sterkt bakland sem hefur stutt hana mikið. „Það sem hefur hjálpað mér mest er að eiga góðan stuðning heima fyrir, góðan maka, góða fjölskyldu og vini sem eru til staðar þegar maður þarf á því að halda.“ Hún ber jafningjastuðningi einnig góða sögu og segir hægt að ræða öðruvísi hluti þar sem hún ræði ekkert endilega heima fyrir. „Það er náttúrulega þessi yfirþyrmandi tilfinning að maður standi andspænis dauðanum. Maður er kannski ekki mikið að tala um það við sína nánustu, en það er eðlilegra að tala um það við þá sem hafa upplifað það líka.“
Ber það ekki utan á sér að vera með ólæknandi sjúkdóm
Vitundarvakningin sem felst í Bleiku slaufunni er fyrir Sunnu Kristínu að við getum sett okkur í spor hvers annars. „Það er fólk þarna úti sem að ber það ekki utan á sér að vera lasið,“ segir hún. „Ef þú myndir mæta mér í Krónunni myndirðu ekki halda að ég væri að glíma við ólæknandi sjúkdóm, ég ber það ekki utan á mér. En það skiptir máli að við vitum af þessu. Það er svo mikilvægt að við getum sett okkur í spor hvers annars og skilið raunveruleika manneskjunnar sem er á kassanum við hliðina á okkur.“