Beint í efni

Skær­bleik grafa til styrktar Bleiku slauf­unni

Ein flottasta grafa landsins seldist á uppboði á dögunum og rann öll upphæðin, 1.111.200 krónur, til Bleiku slaufunnar. Við þökkum eigendum fjölskyldufyrirtækisins Ljárdals, Arnari Loga Ólafssyni og Láru Ösp Oliversdóttur kærlega fyrir framtakið og hlýhuginn.

Ljárdalur ehf. fagnaði tveggja ára afmæli í september, en fyrirtækið stofnuðu þau Arnar Logi og Lára Ösp til að auk fjölbreytni í tækjaflórunni á Íslandi og bjóða upp á gröfur og vinnuvélar á hagstæðu verði. Í tilefni af afmælinu voru þau með stórt afmælistilboð og fengu þá frábæru hugmynd að þakka fyrir sig með því að láta gott af sér leiða. „Til að auglýsa það og gefa aðeins til baka ákváðum við að bjóða upp bleika gröfu til styrktar Bleiku slaufunni,“ segir Arnar Logi.

Styrkurinn afhentur

Grafan sem varð fyrir valinu er af gerðinni HT-10 og er langvinsælasta vélin sem Ljárdalur selur. Hún er eins og áður segir skærbleik á litinn og því óhætt að segja að þar er á ferðinni ein flottasta grafa landsins. Viðtökurnar við uppboðinu fóru fram úr björtustu vonum. „Við vorum með markmið um að ná yfir eina milljón og það náðist tiltölulega fljótt. Það var því ennþá skemmtilegra að fylgjast með í blálokin, hvernig það rauk upp.“ Hæsta boð endaði í 1.111.200 og rann upphæðin óskipt til Bleiku slaufunnar.

Arnar Logi segir fjölskylduna þekkja krabbamein af eigin raun, rétt eins og flestar fjölskyldur á Íslandi, og stóð verkefnið þeim því nærri. „Við þekkjum nokkra í fjölskyldunni sem hafa þurft að glíma við þetta og vildum endilega hjálpa til.“

Við þökkum eigendum Ljárdals, Arnari Loga og Láru Ösp, kærlega fyrir framtakið og hlýhuginn.

Bleika grafan

Mynd fengin af heimasíðu Ljárdals