Beint í efni

Sig­urð­ur Björns­son er lát­inn

Sig­urður Björns­son, krabba­meins­lækn­ir og fyrr­ver­andi formaður Krabba­meins­fé­lags Íslands, lést á Land­spít­al­an­um í Foss­vogi, þann 29. sept­em­ber sl., 82 ára að aldri.

Sigurður menntaði sig í almennum lyflækningum og lyflækningum krabbameina í Bandaríkjunum og var krabbameinslæknir af lífi og sál allan sinn starfsferil.

Málstaðurinn var honum afar hugleikinn og hann tók sæti í stjórn Krabbameinsfélagsins árið 1980. Árið 1998 var hann kjörinn formaður félagsins og gegndi formennsku til ársins 2008. Hann var kjörinn í heiðursráð félagsins sama ár og hlaut gullmerki félagsins.

Árið 2005 var hann sæmdur riddarakrossi fyrir störf sín.

Innan Krabbameinsfélagsins er Sigurðar minnst með mikilli virðingu og þakklæti. Hann lét sig málefni félagsins mikið varða alla tíð, löngu eftir að hann lét af formennsku, mætti á fundi og viðburði og var til dæmis alltaf einn af allra fyrstu kaupendum Bleiku slaufunnar.

Eftirlifandi eiginkonu Sigurðar, Rakel Valdimarsdóttur, börnum hans og öðrum aðstandendum sendum við hjá Krabbameinsfélaginu okkar innilegustu samúðarkveðjur.