Sérstakur gestur á fundi norrænu krabbameinsfélaganna
Stjórn Samtaka norrænu krabbameinsfélaganna, Nordic Cancer Union, hélt fund á Íslandi í tengslum við ráðstefnu norrænu krabbameinsskránna. Sérstakur gestur fundarins var Ramon Reyes, forseti Samtaka evrópsku krabbameinsfélaganna (ECL).
Norrænu krabbameinsfélögin hafa starfað saman undir formerkjum Nordic Cancer Union frá árinu 1949 og skiptast á að veita samtökunum forystu. Samtökin leggja áherslu á að styðja vísindarannsóknir á krabbameinum og veita árlega 900.000 EUR til krabbameinsrannsókna sem byggja á samstarfi vísindamanna aðildarlandanna. Þau styrkja einnig stefnumótandi verkefni á borð við áhrif Covid-19 á krabbamein á Norðurlöndunum, forvarnaverkefni gegn ofþyngd og offitu hjá börnum, CAPOC og stuðning við Nordcan, sameiginlegan gagnagrunn norrænu krabbameinsskránna.
Samtökin eru mikilvægur vettvangur fyrir krabbameinsfélögin til að miðla reynslu og þekkingu um rannsóknir, forvarnir og stuðning. Halla Þorvaldsdóttir, framkvæmdastjóri Krabbameinsfélagsins þakkaði fundargestum fyrir sitt framlag um leið og hún ítrekaði mikilvægi þeirrar vinnu sem samstarfið hverfist um. „Baráttan gegn krabbameinum krefst samtakamáttar og langvarandi samstarf norrænu krabbameinsfélaganna hefur haft þýðingarmikil áhrif í gegnum árin. Þessi hópur sinnir verkefnum sínum af krafti og hollustu á hverjum degi og við gefumst aldrei upp.“
Við þökkum stjórn NCU og Ramon Reyes kærlega fyrir þátttökuna og framlagið.

Stjórn NCU með Ramon Reyes í Hörpu