Beint í efni

Sam­fé­lags­við­ur­kenn­ing veitt í annað sinn

Samfélagsviðurkenning Krabbameinsfélagsins var veitt í annað sinn á aðalfundi félagsins í maí síðastliðnum. Viðurkenninguna hlutu Valdimar Högni Róbertsson og RÚV fyrir einstakt framlag sitt til fræðslu um krabbamein.

Samfélagsviðurkenning Krabbameinsfélagsins er veitt aðilum sem félaginu þykir hafa lagt málstaðnum lið með eftirtektarverðum hætti. Krabbameinsfélagið þakkar Valdimar Högna og RÚV innilega fyrir frábært framtak.

Einstakt verkefni

Um tilnefningu Valdimars Högna segir: Verkefnið er örugglega einstakt, ekki bara hér á landi heldur á heimsvísu og mjög upplýsandi, bæði fyrir börn og fullorðna.

Þegar Valdimar Högni stóð 8 ára gamall frammi fyrir þeirri áskorun að eiga skyndilega pabba með krabbamein vöknuðu ýmsar spurningar. Hann brá á það ráð að afla sér svara með því að gera útvarpsþátt fyrir börn sem eiga foreldri með krabbamein. Þannig lærði hann og gat miðlað um leið þeirri þekkingu sem hann viðaði að sér um sjúkdóminn og afleiðingar hans, til annarra í sömu sporum, öllum til góðs.

Úr varð sex þátta serían „Að eiga mömmu eða pabba með krabba" í umsjón Valdimars Högna, þar sem ýmsir sérfræðingar miðla þekkingu sinni til ungra aðstandenda fólks með krabbamein.

Þáttaserían er aðgengileg á vef RÚV.

Þættirnir vöktu verðskuldaða athygli og fékk Valdimar hrós hvaðana af og fólk setti sig í samband við foreldra hans og til að hrósa honum fyrir framtakið. 

Við tókum Valdimar Högna tali af þessu tilefni og spurðum hann út í þættina og hvað honum fyndist um að hafa fengið þessa viðurkenningu.

https://www.youtube.com/watch?v=9oXKtv9tNZA

Um tilnefningu RÚV segir: Það þarf kjark til að treysta 8 ára strák til að fjalla um svona viðkvæmt efni. Þann kjark hafði RÚV og sinnti þar með heldur betur sinni samfélagslegu skyldu.

Það var Karitas Mörtudóttir Bjarkadóttir, ritstjóri Krakkarúv sem tók við viðurkenningunni fyrir hönd Rúv.

Krabbameinsfélagið þakkar Valdimar Högna og RÚV innilega fyrir frábært framtak, sem vonandi fær að vera þannig aðgengilegt að það nýtist sem allra mest og best.